Hlutabréfaverð Skaga hefur rokið upp á síðustu dögum en gengið hefur nú hækkað um 15% síðustu sex viðskiptadaga.
Gengi samstæðunnar hækkaði um tæp 5% í 180 milljón króna viðskiptum í dag.
Samkvæmt árshlutauppgjöri Skaga í lok ágúst nam hagnaður samstæðunnar eftir skatta 273 milljónum króna á fyrri helmingi árs.
Mun það vera rúmlega 74% samdráttur á milli ára en í árshlutauppgjöri var tekið fram að krefjandi markaðsumhverfi litaði afkomu samstæðunnar.
Hlutabréfaverð Ölgerðarinnar hækkaði einnig í viðskiptum dagsins er gengi félagsins fór upp um tæp 3% í 85 milljón króna viðskiptum.
Hlutabréf í Arion Banka fóru einnig upp á við í viðskiptum dagsins er gengi bankans hækkaði um rúm 2,5% í 816 milljón króna veltu.
Mesta velta var með bréf Marels er gengi félagsins fór upp um rúmt 1% í 1,1 milljarðs króna viðskiptum. Dagslokagengi Marels var 510 krónur.
Gildistími yfirtökutilboðs JBT í allt hlutafé Marels var framlengdur í lok ágúst og hafa hluthafar til 11. nóvember til að taka afstöðu til tilboðsins.