Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,8% í dag. Fjórtán félög aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins og tíu lækkuðu.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,8% í dag. Fjórtán félög aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins og tíu lækkuðu.

Fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækið Sýn lækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 7,2% í 60 milljóna króna veltu. Gengi Sýnar stendur nú í 31,0 krónu á hlut eftir þriðjungslækkun í ár. Hlutabréfaverð félagsins hefur ekki verið lægra síðan í október 2020.

Sýn birti árshlutauppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í gær þar sem fram kemur að félagið tapaði 339 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins og tekjur tímabilsins drógust lítillega saman frá fyrri árshelmingi 2023.

Skagi, móðurfélag VÍS og Fossa, hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar í dag eða um 2,8%. Velta með bréf félagsins nam þó aðeins 36 milljónum króna. Gengi Skaga stendur nú í 14,9 krónum á hlut og er um 10% lægra en í upphafi árs. Skagi birti einnig uppgjör eftir lokun markaða í gær.

Auk Skaga þá hækkaði hlutabréfaverð Íslandsbanka, Reita, Kviku banka og Heima um meira en tvö prósent í dag. Síðastnefnda félagið birti einnig uppgjör fyrir fyrri árshelming í gær og fjallaði Viðskiptablaðið um uppgjörsfund fasteignafélagsins.