Hlutabréfaverð fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækisins Sýnar hækkaði um tæp 27% í viðskiptum vikunnar en vikan hófst á hálfs milljarðs króna utanþingsviðskiptum með bréf félagsins.
Á miðvikudaginn var greint frá því að fjárfestingafélagið SKEL hefði verið á kauphliðinni er félagið, sem er í meirihlutaeigu Strengs, keypti 25 milljón hluti í fjarskiptafélaginu sem samsvarar um 10% hlut í Sýn.
Jón Ásgeir Jóhannesson er stjórnarformaður Strengs og Skeljar. Hann og eiginkona hans Ingibjörg Pálmadóttir eru meðal stærstu eigenda Strengs.
Jón Ásgeir og Ingibjörg áttu um árabil 365 miðla, sem rak Stöð 2, Vísi, Bylgjuna og gaf út Fréttablaðið. Þau seldu 365 miðla til Sýnar árið 2017 og síðar Torg, útgáfufélag Fréttablaðsins, til Helga Magnússonar.
Gengið í viðskiptunum var 22,4 krónur á hlut sem var í samræmi við dagslokagengi Sýnar síðastliðinn föstudag.
Gengi Sýnar hækkaði um rúm 2% í 192 milljón króna viðskiptum í dag og var dagslokagengið 28,4 krónur á hlut. Skel greiddi um 565 milljónir króna fyrir 10% hlut sinn í Sýn en miðað við dagslokagengi dagsins er í dag er markaðsvirði hlutanna um 710 milljónir.
Hlutabréf í Amaroq hækkuðu um tæp 4% í viðskiptum dagsins og var dagslokagengi félagsins 167 krónur. Gengi Icelandair hækkaði um rúmt 1% í 274 milljón króna veltu og var dagslokagengið 1,15 krónur.
Hlutabréfaverð Oculis lækkaði um 2% í 107 milljón króna viðskiptum í dag og var dagslokagengið 2.460 krónur. Gengi Eimskips lækkaði einnig um tæp 2% í 86 milljón króna viðskiptum.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 0,3% og lokaði í 2.709,35 stigum sem er þó 6,45% lægra en í ársbyrjun. Heildarvelta á markaði var 4,3 milljarðar.