Hlutabréfaverð Sýnar hefur hækkað um 7% síðan á mánudaginn eftir um 2% hækkun í viðskiptum dagsins.
Hlutabréfaverð fjarskipta- og fjölmiðlafélagsins Sýnar stóð í 47,6 krónum undir lok apríl þegar félagið sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun.
Fram að viðsnúningi vikunnar hafði gengið lækkað um 32% frá afkomuviðvöruninni.
Sýn ákvað í byrjun mánaðar að senda frá sér afkomuspá fyrir árið en samsteypan gerir ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT), án nokkurra leiðréttinga vegna einskiptiskostnaðarliða, verði á bilinu 900 milljónir í 1,1 milljarð.
Samkvæmt spánni gerir sýn ráð fyrir að heildarumfang skilvirkniverkefna til að bæta reksturinn muni skila félaginu um 600 til 800 milljónum króna á ári og rekstrarhagnaði (EBIT) á bilinu 1,5 til 1,7 milljarðar.
Gengi Icelandair aldrei lægra
Hlutabréfaverð Icelandair hélt áfram að lækka í viðskiptum dagsins og var dagslokagengi flugfélagsins 0,84 krónur. Gengi Icelandair hefur aldrei verið lægra en lægsta gengi félagsins fyrir viðskipti vikunnar var 0,87 en Icelandair fór undir það á miðvikudaginn.
Úrvalsvísitalan OMXI15 hækkaði um 0,39% í viðskiptum dagsins og var heildarvelta á markaði tæpur milljarður.