Hluta­bréfa­verð Sýnar hefur hækkað um 7% síðan á mánu­daginn eftir um 2% hækkun í við­skiptum dagsins.

Hluta­bréfa­verð fjar­skipta- og fjöl­miðla­fé­lagsins Sýnar stóð í 47,6 krónum undir lok apríl þegar fé­lagið sendi frá sér nei­kvæða af­komu­við­vörun.

Fram að við­snúningi vikunnar hafði gengið lækkað um 32% frá af­komu­við­vöruninni.

Sýn á­kvað í byrjun mánaðar að senda frá sér af­komu­spá fyrir árið en sam­steypan gerir ráð fyrir að rekstrar­hagnaður (EBIT), án nokkurra leið­réttinga vegna ein­skiptis­kostnaðar­liða, verði á bilinu 900 milljónir í 1,1 milljarð.

Sam­kvæmt spánni gerir sýn ráð fyrir að heildar­um­fang skil­virkni­verk­efna til að bæta reksturinn muni skila fé­laginu um 600 til 800 milljónum króna á ári og rekstrar­hagnaði (EBIT) á bilinu 1,5 til 1,7 milljarðar.

Gengi Icelandair aldrei lægra

Hluta­bréfa­verð Icelandair hélt á­fram að lækka í við­skiptum dagsins og var dagsloka­gengi flug­fé­lagsins 0,84 krónur. Gengi Icelandair hefur aldrei verið lægra en lægsta gengi fé­lagsins fyrir við­skipti vikunnar var 0,87 en Icelandair fór undir það á mið­viku­daginn.

Úr­vals­vísi­talan OMXI15 hækkaði um 0,39% í við­skiptum dagsins og var heildar­velta á markaði tæpur milljarður.