Hlutabréfaverð fjölmiðla og fjarskiptafyrirtækisins Sýnar hefur lækkað um rúm 16% í fyrstu viðskiptum í morgun en félagið sendi frá sér neikvæða afkomuviðvörun eftir lokun markaða á föstudaginn.

Gengi félagsins stendur í 24,6 krónum þegar þetta er skrifað er sem er um 24% lægra en í byrjun árs.

Í afkomuviðvörun félagsins á föstudaginn kom fram að félagið gerir nú ráð fyrir að rekstrarhagnaður (EBIT) fyrir árið í fyrra verði um 700 milljónir króna, sem er verulega undir áður útgefnum spám.

Fyrri áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir að EBIT myndi liggja á bilinu 900 til 1.100 milljónir króna, en í uppfærðri spá frá síðasta hausti var gert ráð fyrir að hagnaðurinn myndi nálgast neðri mörk þess bils.

Samkvæmt Kauphallartilkynningu Sýnar koma þessi frávik til vegna verulegrar lækkunar auglýsingatekna, samdráttar í áskriftartekjum sjónvarps, minni eignfærslna á launakostnaði og óvænts tjóns vegna eldsvoða sem hafði veruleg áhrif á rekstur félagsins.

Sala auglýsinga reyndist mun minni en gert var ráð fyrir í upphaflegum áætlunum.

Tekjur af auglýsingasölu voru 258 milljónum króna undir væntingum á síðustu tveimur fjórðungum ársins, þar af nam tekjuskerðingin 157 milljónum króna á fjórða ársfjórðungi.

Þessi þróun leiddi til endurmats á áætluðum framtíðartekjum af þessum rekstrarþætti. Samhliða því voru áskriftartekjur af sjónvarpsmiðlum einnig undir væntingum og vantaði 106 milljónir króna upp á markmið félagsins á því sviði.

Auk þess hafði breytt eignfærslustefna áhrif á afkomu félagsins, þar sem tekin var ákvörðun um að eignfæra minna af launakostnaði en áður hafði verið áætlað.

Mismunurinn vegna þessara breytinga nemur 112 milljónum króna. Þótt um sé að ræða bókhaldslega ákvörðun frekar en raunverulegt útstreymi fjár er það engu að síður þáttur sem vegur þungt í lokaniðurstöðunni.

Í ljósi ofangreindra frávika sagði Sýn að félagið þyrfti að að endurskoða áður gefnar spár um EBIT fyrir árið 2025 til lækkunar. Félagið mun kynna uppfærðar horfur fyrir árið 2025 samhliða birtingu endanlegs ársuppgjörs þann 20. febrúar næstkomandi.

Ársuppgjör félagsins fyrir 2024 er enn í vinnslu og geta endanlegar niðurstöður tekið breytingum fram að þeim tíma.