Hluta­bréfa­verð banda­ríska fjöl­miðilsins The New York Times hefur hækkað um 6% í utan­þings­við­skiptum eftir að fjöl­miðla­sam­steypan birti upp­gjör fyrir opnun markaða í dag.

Samkvæmt The Wall Street Journal fjölgaði staf­rænum á­skrif­endum fjöl­miðilsins um 300 þúsund á síðasta fjórðungi og eru á­skrif­endur orðnir yfir tíu milljónir í fyrsta sinn í sögu miðilsins.

Sam­þættar á­skriftir eru að drífa fjölgunina þar sem not­endur kaupa að­gang að leikjum, frétta­vefnum, mat­reiðslu­bókum og fleira.

Tekjur fé­lagsins námu 625,1 milljón Banda­ríkja­dala á fjórðungnum sem sam­svarar um 86 milljörðum króna á gengi dagsins. Hagnaður fé­lagsins nam 65,5 milljónum dala sem samvarar um 9 milljörðum króna á gengi dagsins og er um 41% hækkun á milli ára.

Heildar­á­skrif­endur miðilsins, sem nær einnig yfir prent­út­gáfuna, námu 10,8 milljónum. Tekjur af hverjum á­skrif­enda voru einnig meiri á milli ára.

The At­hletic, í­þrótta­fjöl­miðill sam­stæðunnar, tapaði 2,4 milljónum dala á fjórðungnum sem er þó tölu­vert minna en tap síðustu fjórðunga.