Hlutabréfaverð Vestas og Ørsted í dönsku Kauphöllinni rauk upp í fyrstu viðskiptum í morgun eftir kappræður forsetaframbjóðenda Bandaríkjanna í nótt.
Samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen var kaupþrýstingur í Kaupmannahöfn í morgun en var ásókn í bréf Vestas sem hækkaði um tæp 6% og í Ørsted sem hækkaði um 5,5% í fyrstu viðskiptum.
Ørsted er stærsta orkufyrirtæki Danmerkur og félagið hefur töluverða hagsmuni í Bandaríkjunum, sér í lagi í tengslum við verkefnið Revolution Wind.
Um er að ræða vindmylluverkefni rétt fyrir utan austurströnd Bandaríkjanna en framkvæmdir áttu að hefjast í haust en hefur verið seinkað. Áætlað er að vindmyllurnar vestanhafs verði teknar í notkun árið 2026 fremur en 2025 eins og stóð til.
Samkvæmt bandarískum fjölmiðlum styrkti Kamala Harris stöðu sína í kappræðunum en hún er hliðhollari vindmylluverkefnum en mótframbjóðandi hennar Donald Trump.
Vestas er danskt fyrirtæki sem framleiðir og þjónustar vindmyllur víða um heim og hefur því einnig hag af niðurstöðum forsetakosninganna í nóvember.
„Það er alveg ljóst að óttinn við sigur Donald Trump hefur haft neikvæð áhrif á gengi Ørsted og Vestas,“ segir Jacob Pedersen aðalhagfræðingur Sydbank í samtali við Børsen.
Hlutabréfaverð Vestast hefur lækkað um 20% síðastliðna sex mánuði á meðan gengi Ørsted hefur sveiflast mikið en hækkað um þó um 18% á sama tímabili.
Síðarnefnda félagið hefur einnig verið í töluverðum rekstrarvandræðum en hluta af þeim vanda má rekja til vindmylluverkefna í Bandaríkjunum