Hlutabréf tölvuleikjafyrirtækisins Ubisoft Entertainment hækkuðu um meira en 11% í dag en nýjasti tölvuleikur þess, Assassin‘s Creed Shadows, er nú kominn með fleiri en tvær milljónir spilara á heimsvísu á innan við viku eftir útgáfu.
Á vef WSJ segir að nýjasti leikurinn hafi tekið langt fram úr fyrri útgáfum á borð við Assassin‘s Creed Origins og Assassin‘s Creed Odyssey.
Franski tölvuleikjaframleiðandinn gaf leikinn út þann 20. mars sl. en í honum geta spilarar barist sín á milli sem miðaldarleigumorðingjar og samúræjar í Japan. Ubisoft hafði reynt að gefa leikinn út í nóvember en fyrirtækið þurfti meiri tíma til að fínpússa leikinn.
Ubisoft tekur þessari velgengni fagnandi en gengi fyrirtækisins hefur lækkað um tæp 30% undanfarið ár og hefur framleiðandinn verið undir miklum þrýstingi frá fjárfestum.
Útgáfa tölvuleiksins Star Wars Outlaws um hátíðirnar olli þar að auki miklum vonbrigðum og þurfti fyrirtækið að hætta framleiðslu á leiknum XDefiant. Sú ákvörðun leiddi til fækkunar á 270 störfum og þurfti Ubisoft að loka skrifstofum sínum í San Francisco og Osaka.