Hlutabréfaverð hugbúnaðarfyrirtækisins Unity hækkaði um 6% í framvirkum samningum í nótt eftir að forstjóri fyrirtækisins, John Riccitiello, sagði starfi sínu lausu seint í gærkvöldi.
Riccitiello tók við sem forstjóri Unity af Davíð Helgasyni, einn stofnenda Unity, árið 2014.
Þegar Riccitiello tók við starfinu fagnaði Davíð ráðningunni á Facebook og sagði að fyrirtækið hafi gengið á eftir honum í nokkurn tíma. Ráðning Riccitiello gerði Davíð kleift að gera það sem hann vildi innan fyrirtækisins án þess að hafa áhyggjur af daglegum rekstri.
Áætlað er að gengi Unity opni í um 32 dölum í Kauphöllinni í New York á eftir en hlutabréf í Unity hafa hækkað um 10% á árinu en lækkað um 3% sl. 6 mánuði.
Hlutur Davíðs metin á 37,5 milljarða
Davíð á enn hluti í fyrirtækinu en félagið var skráð í Kauphöllina í New York árið 2020.
Hlutabréfaverð Unity hækkaði gífurlega í virði við skráningu líkt og mörg önnur tæknifyrirtæki í heimsfaraldrinum.
Eftir skráningu átti Davíð 4% hlut í félaginu. Hann hefur aftur á móti lækkað eignarhlut sinn í félaginu í nokkrum skrefum síðan.
Samkvæmt vefmiðlinum Benzinga hefur Davíð selt hluti í Unity fyrir rúma 32 milljarða íslenskra króna. Hann seldi síðast 12,500 hluti fyrir í byrjun ágúst fyrir 74 milljónir króna.
Davíð á enn 9.095.216 hluti í Unity sem eru 37,5 milljarðs króna virði á núverandi gengi.
Unity Technologies framleiðir verkfæri fyrir tölvuleikjaframleiðendur, smáa sem stóra, og er tæknin sú vinsælasta hjá þeim sem búa til leiki fyrir snjallsíma.