Hlutabréf í United States Steel hækkuðu um 36% í Kauphöllinni í New York í gær eftir að fjárfestingafélagið Esmark lagði fram kauptilboð í fyrirtækið.
Esmark, sem var afskráð 2008 og er í einkaeigu James P. Bouchard og fjölskyldu, bauðst til að kaupa US Steel á 35 dali á hlut en samkvæmt því er kaupverðið 7,8 milljarðar Bandaríkjadala, sem samsvarar yfir þúsund milljörðum íslenskra króna.
Mun það vera 54% hærra en dagslokagengi U.S. Steel á föstudaginn sem var 22,72%.
Höfnuðu öðru kauptilboði í gær
US Steel hafnaði kauptilboði Cleveland Cliffs sem hljóðaði upp á 7,3 milljarða dali í gær en skömmu síðar bauð Esmark í félagið. US Steel hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ársfjórunga og hefur hagnaður fyrirtækisins dregist saman vegna hækkandi orkukostnaðar og hærra hrávöruverðs.
J.P. Morgan stofnaði US Steel árið 1901 með því að fjármagna samruna á stálfyrirtæki Andrew Carnegie, Carniege Steel Company, við tvö önnur stálfyrirtæki.
Fyrirtækið var um tíma verðmætasta fyrirtæki heims og fyrsta fyrirtæki í heiminum til að vera metið á yfir 1 milljarð Bandaríkjadala.