Úrvalsvísitalan lækkaði lítillega í 5,3 milljarða króna veltu í Kauphöllinni í dag. Hástökkvarar dagsins eru útgerðarfélögin Brim og Síldarvinnslan ásamt Icelandair.
Hlutabréfaverð Brims hefur aldrei verið hærra en útgerðarfélagið hækkaði um 4,6% í 225 milljóna króna veltu og stendur nú í 92 krónum á hlut. Alls hefur gengi Brims hækkað um 18% frá áramótum og um 74% á ársgrunni. Gengi Síldarvinnslunnar er komið upp í 99,4 krónur eftir 2,9% hækkun í dag og er nú hærra en áður en stríðsátökin í Úkraínu hófust.
Icelandair hækkaði fimmta viðskiptadaginn í röð. Gengi flugfélagsins hefur hækkað um 16,7% á einni viku og stendur nú í 1,75 krónum á hlut. Þá hækkaði gengi Play einnig um 1,4%, þó í takmörkuðum viðskiptum. Viðskiptablaðið sagði frá því í dag að hráolíuverð hefur féll töluvert í dag og í gær eftir miklar hækkanir fyrr í mánuðinum.
Hlutabréfaverð Haga, móðurfélag Bónus, Hagkaups og Olís, náði nýjum hæðum í 75 krónum á hlut eftir 2% hækkun í 360 milljóna veltu í dag. Gengi Haga hefur hækkað um 11% í ár.
Hlutabréf tíu félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar féllu í dag. Að undanskildu Skeljungi, þá lækkuðu hlutabréf Reita, Eimskips og Kvika mest í dag, öll um tæplega eitt prósent.