Hlutabréf Íslandsbanka lækkuðu um 1,26% í dag og stóðu í 117,5 krónum við lokun markaða.
Þrátt fyrir lækkunina er gengið áfram 10,27% hærra en útboðsgengið í sölu ríkisins, sem fór fram fyrr í vikunni þar sem hlutir voru seldir á 106,56 krónum á hlut.
Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneytinu og söluaðilum fengu um 31 þúsund einstaklingar afhent bréf í Íslandsbanka í gær og í dag, í kjölfar þess að þeir tóku þátt í tilboðsbók A í útboðinu.
Viðskiptagögn dagsins benda til þess að einhverjir þeirra hafi nýtt sér verðmuninn til að selja bréf sín strax eftir afhendingu og tryggt sér ágætis hagnað.
Stærstu viðskipti dagsins fyrir hádegi
Tvö stærstu viðskipti dagsins áttu sér stað fyrir hádegi, þar sem bréfin gengu á 119,75 krónum á hlut.
Kl. 11:38: 1.389.508 hlutir voru seldir, samtals fyrir 166,4 milljónir króna.
Kl. 11:58: 2.146.838 hlutir seldir, samtals fyrir 257,1 milljón króna
Í báðum tilvikum var gengið 13,19 kr. eða 12,38% hærra en útboðsgengið.
Samanlagt námu þessi tvö viðskipti 423,5 milljónum króna, sem sýnir eftirspurnina eftir bréfunum fyrri hluta dags.
Söluþrýstingur eftir hádegi
Eftir hádegi myndaðist söluþrýstingur með bréf bankans og hófst verðlækkun í þrepum um eittleytið. Gengi bréfanna fór niður í 118,5 krónur, síðan 118 krónur og lækkaði enn frekar um tvöleytið.
Frá um kl. 14:00 og fram til lokunar sveiflaðist gengi bréfanna á bilinu 117,5 til 118 krónur, og lauk viðskiptum dagsins á 117,5 krónum sem jafnframt var lægsta viðskiptaverð dagsins.
Heildarvelta með bréf Íslandsbanka nam 6,3 milljörðum króna.
Alls fóru fram 1.359 viðskipti með bréf félagsins, samkvæmt gögnum Kauphallarinnar.
Meðalverð viðskipta var verulega yfir útboðsgengi sem sýnir að markaðurinn verðmetur Íslandsbanka töluvert hærra en gengið í útboði ríkisins.
Bankabréf með mestu veltuna
Úrvalsvísitala hlutabréfamarkaðarins lækkaði um 0,42% í dag og heildarvelta nam 8,8 milljörðum króna.
Hlutabréf Play lækkuðu um 4,4% í dag í örviðskiptum. Lokagengi félagsins var 0,76 krónur á hlut. Sveiflur í verði með bréf félagsins hafa verið talsverðar síðustu daga þrátt fyrir litla veltu.
Amaroq Minerals lækkar eftir miklar hreyfingar í gær
Hlutabréf í Amaroq Minerals lækkuðu um tæp 4% í 100 milljóna króna viðskiptum.
Í gær hækkaði gengi félagsins um 11%, í kjölfar óvenjulegra verðhreyfinga í kanadísku kauphöllinni daginn áður.
Viðskipti með bréf Amaroq voru stöðvuð síðdegis í Kanada á miðvikudag, eftir að gengi félagsins hafði nær tvöfaldast á nokkrum mínútum, úr 1,47 dölum í 2,90 dali.
Sú hækkun jafngilti 97% aukningu frá lokagengi fyrri dags og markaði hæsta skráða gengi í sögu félagsins.
Gengi Kviku banka hækkaði um 3,54% í 974 milljóna króna viðskiptum. Lokagengi var 15,35 krónur.
Gengi Arion banka hélst óbreytt í 420 milljóna króna viðskiptum og var daglokagengi bankans 117,5 krónur.