Hluta­bréf Ís­lands­banka lækkuðu um 1,26% í dag og stóðu í 117,5 krónum við lokun markaða.

Þrátt fyrir lækkunina er gengið áfram 10,27% hærra en út­boðs­gengið í sölu ríkisins, sem fór fram fyrr í vikunni þar sem hlutir voru seldir á 106,56 krónum á hlut.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá fjár­málaráðu­neytinu og sölu­aðilum fengu um 31 þúsund ein­staklingar af­hent bréf í Ís­lands­banka í gær og í dag, í kjölfar þess að þeir tóku þátt í til­boðs­bók A í út­boðinu.

Við­skipta­gögn dagsins benda til þess að einhverjir þeirra hafi nýtt sér verðmuninn til að selja bréf sín strax eftir af­hendingu og tryggt sér ágætis hagnað.

Stærstu við­skipti dagsins fyrir há­degi

Tvö stærstu við­skipti dagsins áttu sér stað fyrir há­degi, þar sem bréfin gengu á 119,75 krónum á hlut.

Kl. 11:38: 1.389.508 hlutir voru seldir, sam­tals fyrir 166,4 milljónir króna.

Kl. 11:58: 2.146.838 hlutir seldir, sam­tals fyrir 257,1 milljón króna

Í báðum til­vikum var gengið 13,19 kr. eða 12,38% hærra en út­boðs­gengið.
Saman­lagt námu þessi tvö við­skipti 423,5 milljónum króna, sem sýnir eftir­spurnina eftir bréfunum fyrri hluta dags.

Söluþrýstingur eftir há­degi

Eftir há­degi myndaðist söluþrýstingur með bréf bankans og hófst verðlækkun í þrepum um eitt­leytið. Gengi bréfanna fór niður í 118,5 krónur, síðan 118 krónur og lækkaði enn frekar um tvö­leytið.

Frá um kl. 14:00 og fram til lokunar sveiflaðist gengi bréfanna á bilinu 117,5 til 118 krónur, og lauk við­skiptum dagsins á 117,5 krónum sem jafn­framt var lægsta við­skipta­verð dagsins.

Heildar­velta með bréf Ís­lands­banka nam 6,3 milljörðum króna.

Alls fóru fram 1.359 við­skipti með bréf félagsins, sam­kvæmt gögnum Kaup­hallarinnar.

Meðal­verð við­skipta var veru­lega yfir út­boðs­gengi sem sýnir að markaðurinn verð­metur Ís­lands­banka tölu­vert hærra en gengið í út­boði ríkisins.

Banka­bréf með mestu veltuna

Úr­vals­vísi­tala hluta­bréfa­markaðarins lækkaði um 0,42% í dag og heildar­velta nam 8,8 milljörðum króna.

Hluta­bréf Play lækkuðu um 4,4% í dag í ör­við­skiptum. Loka­gengi félagsins var 0,76 krónur á hlut. Sveiflur í verði með bréf félagsins hafa verið tals­verðar síðustu daga þrátt fyrir litla veltu.

Amaroq Minerals lækkar eftir miklar hreyfingar í gær

Hluta­bréf í Amaroq Minerals lækkuðu um tæp 4% í 100 milljóna króna við­skiptum.

Í gær hækkaði gengi félagsins um 11%, í kjölfar óvenju­legra verðhreyfinga í kana­dísku kaup­höllinni daginn áður.

Við­skipti með bréf Amaroq voru stöðvuð síð­degis í Kanada á mið­viku­dag, eftir að gengi félagsins hafði nær tvöfaldast á nokkrum mínútum, úr 1,47 dölum í 2,90 dali.

Sú hækkun jafn­gilti 97% aukningu frá loka­gengi fyrri dags og markaði hæsta skráða gengi í sögu félagsins.

Gengi Kviku banka hækkaði um 3,54% í 974 milljóna króna við­skiptum. Loka­gengi var 15,35 krónur.

Gengi Arion banka hélst óbreytt í 420 milljóna króna við­skiptum og var dag­loka­gengi bankans 117,5 krónur.