Félag íslenskra atvinnuflugmanna lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu flugmanna Landhelgisgæslunnar en flugmenn LHG hafa verið kjarasamningslausir í meira en ár eftir fimm ára undirbúning nýs kjarasamnings.

Samhliða því hafa flugmenn LHG þurft að leggja sitt undir til að halda uppi háu þjónustustigi þrátt fyrir undirmönnun og hægan samningsvilja af hálfu ríkisins.

FÍA gerir þá alvarlegar athugasemdir um flugöryggi í tengslum við þann þrýsting sem Landhelgisgæslan setur á flugmenn til að standa vakt þrátt fyrir að vera búnir með hámarksvakttíma og í orlofi eða miðjum veikindum.

Andri Jóhannesson, þyrluflugmaður Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann sé gáttaður á vinnubrögðum Samninganefndar ríkisins sem skilji hvorki ferli né mikilvægi stéttarinnar.

„Mér skilst að allt hafi verið klárt af hálfu samninganefndarinnar og eftir margra ára vinnu átti að undirrita nýjan kjarasamning í lok júní. Sáttasemjari var svo búinn að boða til vöfflukaffis eins og sagt er og þá var bara skyndilega hætt við.“

Að mati FÍA er fjármálaráðuneytið með þessu að ráðast á verkfallsréttalausa starfsstétt og er á sama tíma að stefna fólki, sem þarf nauðsynlega á þjónustu LHG að halda, í hættu.

Andri bendir einnig á að þyrluflugnám sé rúmlega þrefalt dýrara en venjulegt flugnám og að flugnemar fái engin námslán fyrir náminu fyrir utan styrk fyrir bóklega námið, sem samsvari ekki nema 10% af heildarnáminu.

„Við berum mesta traust þjóðfélagsins og fljúgum í alls kyns aðstæðum en það er eins og okkur sé refsað fyrir það. Þegar komið er svona fram við okkur þá eru menn líka að hugsa hvort það sé bara betra að fljúga annars staðar þar sem þeir þurfa ekki að glíma við þetta.“