Heiðar Guðjónsson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri Sýnar, seldi 12,7% hlut sinn í Sýn til Gavia Invest fyrir 2,2 milljarða króna í júlí 2022. Gengi hlutabréfa Sýnar var 64 krónur á hlut í viðskiptunum, sem var 9,4% yfir dagslokagengi Sýnar er kaupin gengu í gegn.

Gavia stækkaði strax í kjölfarið við hlut sinn og á í dag 18,23% hlut í félaginu og er stærsti hluthafi þess. Heildarfjárfesting félagsins í hlutabréfum Sýnar nemur rúmlega 2,8 milljörðum króna.

Hlutabréfaverð Sýnar hefur lækkað um 63% frá kaupum Gavia sumarið 2022 og stendur nú í 23,6 krónum á hlut. Markaðsvirði eignarhlutar Gavia í Sýn nemur tæplega einum milljarði króna í dag.

Gavia Invest var í lok árs 2023 í 80,7% eigu InfoCapital, fjárfestingarfélags Reynis Grétarssonar, 16,7% eigu E&S ehf., félags Jonathans R. Rubini, Andra Gunnarssonar og Mark Kroloff, og 2,7% eigu Pordoi, félags Jóns Skaftasonar, sem lét af störfum sem stjórnarformaður Sýnar síðasta vor.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.