Sérhæfða yfirtökufélagið (e. SPAC) Digital World Acquisitions Corp (DWAC), sem fyrirhugað er að sameinist fjölmiðlafyrirtæki Donald Trump, hefur hækkað um 25% í fyrstu viðskiptum dagsins eftir að fyrrum Bandaríkjaforsetinn ýjaði að áformum um forsetaframboð. Bloomberg greinir frá.

Hlutabréf DWAC hækkuðu um allt að 73% þegar mest lét í viðskiptum fyrir opnun markaða í dag.

Þá hækkaði gengi Phunware, hugbúnaðarfyrirtækis sem aðstoðaði Trump fyrir síðustu forsetakosningar, um 14%.

Eins og stendur, hyggst Trump tilkynna formlega forsetaframboð sitt fyrir kosningarnar árið 2024 eftir miðkjörtímabilskosningarnar í vikunni, samkvæmt heimildum Bloomberg. Trump hefur hins vegar gefið sterklega til kynna að hann hyggist sækjast eftir embættinu á ný.

Digital World var skráð fyrir rúmu ári síðan að undangengnu frumútboði með útboðsgenginu 10 dalir. Hlutabréf Digital World margfölduðust í verði eftir að tilkynnt var um að félagið hafi náð samkomulag við Trump Media & Technology Group (TMTG), nýs fjölmiðlafyrirtækis Trump. Stærsta verkefni TMTG hingað til hefur verið samfélagsmiðilinn TRUTH Social.

Samfélagsmiðillinn fór hins vegar ekki jafnvel af stað og væntingar stóðu til um. Það er meðal skýringa fyrir því að gengi SPAC-félagsins hefur fallið um meira en helming í ár.