Hluta­bréf í danska orku­fyrir­tækinu Ørsted féllu um 18 pró­sent í fyrstu við­skiptum í morgun eftir að Trump-stjórnin fyrir­skipaði skyndi­lega stöðvun á upp­byggingu 10,5 milljarða danskra króna vindorku­verk­efnisins Re­volution Wind í Bandaríkjunum.

Gengið féll niður, 175 danskar krónur á hlut, sem er það lægsta í sögu félagsins en markaðsvirði minnkaði í um 74 milljarða danskra króna.

Re­volution Wind-verk­efnið, sem er 80 pró­sent full­byggt, átti að hefja fram­leiðslu á næsta ári og sjá 350 þúsund heimilum í Rhode Is­land og Connecticut fyrir raf­magni með 20 ára langtíma­samningum.

Bandaríska orkumála­stofnunin BOEM vísaði til „þar­far á að gæta þjóðaröryggis­hags­muna“ í til­kynningu sinni en gaf engar frekari skýringar.

Fjár­festar óttast nú að óvissan muni grafa undan áformum Ørsted um að afla nýs hluta­fjár fyrir 60 milljarða danskra króna til að fjár­magna bæði Re­volution Wind og systur­verk­efnið Sun­rise Wind.

„Það er spurning hvort félagið geti haldið áfram með hluta­fjárút­boð með þessa óvissu yfir sér,“ sagði Jacob Peder­sen, greiningaraðili hjá Syd­bank, en Financial Times greinir frá.

Ørsted, sem eitt sinn var talið leiðandi í orku­byltingu hins græna hag­kerfis, hefur orðið fyrir þungum höggum undan­farin misseri vegna hækkandi vaxta, pólitísks þrýstings og vaxandi efa­semda Bandaríkja­stjórnar um vindorku­verk­efni.

Hluta­bréf félagsins hafa nú lækkað um nærri 90 pró­sent frá hæsta gengi árið 2021.

Greiningaraðilar hjá Citi telja að tafir líkt og þær sem Equ­in­or varð fyrir fyrr á þessu ári geti seinkað hluta­fjárút­boði Ørsted og hug­san­lega minnkað um­fang þess, sér­stak­lega ef kostnaður við tafirnar verður mikill.

Sam­band Bandaríkjanna og Dan­merkur hefur versnað á valda­tíma Trumps, einkum eftir um­mæli for­setans um að Bandaríkin vilji taka yfir Græn­land. Þróunin hefur skapað pólitíska spennu sem gæti nú haft bein áhrif á danska orku­fyrir­tækið.

Til saman­burðar hafa Noregur og Equ­in­or notið betri sam­skipta við Bandaríkin, m.a. vegna persónu­legra tengsla Jens Stol­ten­bergs fjár­málaráðherra við Trump, en jafn­vel þar kostuðu tafir á svipuðu verk­efni Equ­in­or um 5,6 milljarða danskra króna áður en því var loks heimilað að halda áfram.

Fram­haldið ræðst af því hvort danska ríkið, sem er stærsti hlut­hafi Ørsted, styður áfram við félagið og hvort Bandaríkja­stjórnin muni aflétta banni sínu á næstu vikum.

Hvað sem því líður hefur hrunið í dag vakið spurningar um hvort Ørsted muni neyðast til að endur­meta alla framtíð sína á bandarískum vindorku­markaði.