Íslenska nýsköpunarfyrirtækið AviLabs hefur undirritað samstarfssamning til fimm ára við AirAsia, stærsta flugfélag Malasíu. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.
AviLabs er íslenskt nýsköpunarfélag stofnað af hópi sérfræðinga í fluggeiranum og hefur þróað hugbúnað sem heldur utan um stjórnun ferðarofs þegar flugum er seinkað, aflýst eða þau raskast með öðrum hætti.
Sveinn Akerlie, sem var áður yfir upplýsingatæknimálum hjá Wow Air, er forstjóri og einn stofnenda AviLabs.
Plan3, aðallausn félagsins, gerir flugfélögum kleift að vakta ferðarof í rauntíma og býr með sjálfvirkum hætti til klæðskerasniðna úrlausnir við ferðarofi sem gerir farþegum kleift að leysa á sem skilvirkastan máta úr ferðarofi með þeim hætti sem þeim hentar best.
„Innleiðing Plan3 styrkir AirAsia þannig í að takast á við kostnaðarsamar og ófyrirsjáanlegar flugraskanir á hagkvæman hátt og stuðla að bættri upplifun og viðhorfi farþega,“ segir í tilkynningunni.
„Það er virkilega ánægjulegt að ganga til samstarfs við AirAsia, flugfélag sem er leiðandi í notkun tækninýjunga í starfsemi sinni. Með innleiðingu Plan3, verður AirAsia fyrsta flugfélagið í sínum heimshluta til þess að bjóða jafn framúrstefnulega og einstaklingsmiðaða nálgun í stjórnun ferðarofs og raun ber vitni, sem mun setja ný viðmið í fluggeiranum,“ segir Sveinn Akerlie.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141313.width-1160.jpg)
AviLabs segir að hundruð milljóna farþega verði fyrir ferðarofi á ári hverju vegna seinkana og aflýsingu fluga. Slíkar raskanir kosti flugiðnaðinn rúmlega 60 milljarða dala á ári hverju í aukinn rekstrarkostnað, og endurbókanir og bætur til farþega. Félagið segir slæmt utanumhald flugfélaga um ferðarof er ein helsta ástæða fyrir óánægju farþega.
„Ferðarof er óhjákvæmilegt í fluggeiranum, hvort sem það er vegna veðurs eða annarra þátta sem flugfélög hafa ekki stjórn á. Í samstarfi við AviLabs höfum við innleitt lausn sem setur þarfir viðskiptavina okkar í fyrsta sæti, eflir okkur í að stýra ferðalofi á skilvirkari hátt, og þar með bæta upplifun farþega,“ er haft eftir Alexia Leong, forstöðumanni ánægju viðskiptavina hjá AirAsia.