Þrótabú rafmyntakauphallarinnar FTX, sem varð gjaldþrota í árslok 2022, hefur lýst því yfir að allir kröfuhafar félagsins, að bandaríska ríkinu undanskildu, muni fá fullar endurheimtur fyrir kröfur auk vaxta.
FTX áætlar að félagið muni hafa á bilinu 14,5-16,3 milljarða dala til að ráðstafa til viðskiptavina og annarra kröfuhafa. Til samanburðar nema skuldir FTX um 11 milljarða dala, að því er segir í frétt BBC.
Þrotabúið segist hafa aflað nægjanlegs handbærs fjár með því að koma "einstaklega fjölbreyttu eignasafni" í verð, m.a. með sölu á vísifjárfestingum sem FTX og systurféalg þess Alameda Research réðust í á sínum tíma.
Í umfjöllun WSJ kemur fram ða þrotabúið hafi áður lýst því yfir að það geri ráð fyrir fullum endurheimtum hjá kröfuhöfum, sem eru að stórum hluta fyrrum viðskiptavinir rafmyntakauphallarinnar. John J. Ray III, sem hefur stýrt FTX sem forstjóri í gegnum gjaldþrotaskiptin, hefur nú lagt fram formlega áætlun um fjárhagslega endursipulagningu sem verður lögð fyrir skiptarétt.
Sam Bankman-Fried, stofnandi FTX, var dæmdur í 25 ára fangelsi í mars á þessu ári fyrir að féfletta viðskiptavini og fjárfesta. Hann hafði byggt fyrirtækið upp í eina stærstu rafmyntakauphöll heims og naut mikillar virðingar sem laðaði að milljónir viðskiptavina.