Arion og Kvika hafa sent frá sér sameiginlega tilkynningu um stöðu samrunaviðræðna bankanna. Þeir segja að um sé að ræða einn umfangsmesta samruna sem ráðist hafi verið í á íslenskum fjármálamarkaði. Því megi gera ráð fyrir að ferlið taki þó nokkurn tíma.

Bankarnir segja að vörumerkin Kvika og Auður muni áfram gegna mikilvægu hlutverki fyrir viðskiptavini hjá sameinuðum banka.

Hyggjast óska eftir viðræðum við SKE í ágúst

Kvika banki tilkynnti þann 6. júlí síðastliðinn að hefja samrunaviðræður við Arion banka. Viljayfirlýsingin felur í sér að hluthafar Kviku eignist 26% hlut í sameinuðu félagi. Endurspeglar það gengið 19,17 krónur á hlut fyrir Kviku banka og 174,5 krónur á hlut fyrir Arion banka.

Arion og Kvika segja fyrstu skref ferlisins vera áreiðanleikakannanir og samrunaviðræður en sú vinna sé þegar hafin.

„Stefnt er að því að óska eftir forviðræðum við Samkeppniseftirlitið í ágúst, þar sem kynnt verða markmið með samrunanum og sá ávinningur sem mun hljótast af honum, bæði fyrir viðskiptavini og íslenskan fjármálamarkað. Vonast er til að forviðræður, samningagerð og áreiðanleikakannanir klárist á næstu mánuðum‏.

Að því gefnu að forviðræður við Samkeppniseftirlitið gangi vel, verður samruninn tilkynntur formlega til eftirlitsaðila og síðar lagður fyrir hluthafafundi beggja félaga.“

Í tilkynningunni segir að ef af samruna Kviku og Arion verði muni það styrkja og efla bankaþjónustu við viðskiptavini sameinaðs félags.

„Við samrunann skapast tækifæri til áhættudreifingar og breiðari tekjumyndunar en hann leiðir ekki síður til aukins hagræðis í starfsemi sameinaðs félags og þar með á íslenskum fjármálamarkaði.

Kvika hefur síðustu ár verið virkur keppinautur á mörkuðum, meðal annars með vörumerkið Auði sem hefur haft mikil áhrif á innlánamarkað og nýlega farið inn á húsnæðislánamarkað með góðum árangri. Eftir sameiningu munu vörumerki félaganna halda áfram að gegna mikilvægu hlutverki fyrir viðskiptavini.“

Bankarnir segja að reglulega verði greint frá stöðu mála og framvindu viðræðna eftir því sem við á og ástæða er til.