Rekstrar­hagnaður Reita fyrir mats­breytingu nam 11 milljörðum króna í fyrra og jókst um 824 milljónir, eða 8,1% á milli ára, sam­kvæmt ný­birtu stjórn­enda­upp­gjöri.

Tekjur félagsins á árinu námu 16,4 milljörðum króna sem er aukning um 8,8% frá fyrra ári.

Sam­kvæmt upp­gjörinu má rekja tekju­aukninguna til verðlags­hreyfinga en nýjar eignir skiluðu um 200 milljóna aukningu.

Þá segir félagið að fram­gangur vaxtar­stefnu, sem kynnt var á árinu, hafi verið vonum framar en félagið fjár­festi fyrir 18,1 milljarð á árinu 2024, þar af 9,6 milljarða króna í nýjum eignum og rúma 8,5 milljarða í endur­bætur á fast­eignum félagsins.

Sam­kvæmt Kaup­hallar­til­kynningu Reita er þetta í fyrsta sinn sem félagið birtir stjórn­enda­upp­gjör um rekstur, efna­hag og sjóð­streymi ásamt um­fjöllun um það helsta sem gerðist hjá félaginu á árinu en stjórn­enda­upp­gjörið er ekki endur­skoðað af endur­skoðendum félagsins.

Endur­skoðaður árs­reikningur verður birtur 3. mars næst­komandi.

Lykiltölur rekstrar 2024 2023
Leigutekjur 16.442 15.107
Rekstrarkostnaður fjárfestingareigna 4.435 4.126
Stjórnunarkostnaður 1.033 831
Rekstrarhagnaður f. matsbr. 10.974 10.150
Matsbreyting fjárfestingareigna 17.834 10.750
Rekstrarhagnaður 28.808 20.900
Hrein fjármagnsgjöld 9.215 10.850
Heildarhagnaður 15.295 7.496
Hagnaður á hlut 21,7 kr. 10,2 kr.

„Árið 2024 var Reitum fast­eignafélagi mjög gæfuríkt og markaði upp­haf nýs vaxtar­skeiðs í sögu félagsins. Ný stefna var kynnt á vor­mánuðum og veg­ferð næstu ára kortlögð á sama tíma. Stefnan felur í sér aukinn vaxtar­hraða með ríkari áherslu á þróunar­verk­efni, þar sem fjár­festing í fjöl­breyttari eigna­flokkum og sjálf­bærni er í for­grunni. Mark­mið félagsins er að vera leiðandi afl í upp­byggingu og rekstri inn­viða. Þar er sér­stak­lega horft til sam­félags­legra inn­viða og eigna­flokka, þar sem þörfin er brýn og fram­lag Reita gæti verið þjóðfélaginu jafnt og hlut­höfum til heilla,” segir Guðni Aðal­steins­son, for­stjóri Reita.

Sam­kvæmt stjórn­enda­upp­gjörinu gerir félagið ráð fyrir að rekstrar­tekjur ársins verði 17,7 til 18 milljarðar króna, sem er aukning um 8-9%, og að rekstrar­hagnaður ársins nemi 11,75 til 12,05 milljörðum og aukist um 7-10%.

Lykiltölur efnahags 31.12.2024 31.12.2023
Fjárfestingareignir 226.430 189.971
Handbært og bundið fé 2.337 1.408
Heildareignir 231.369 193.381
Eigið fé 72.429 60.273
Vaxtaberandi skuldir 128.840 108.432
Eiginfjárhlutfall 31,3% 31,2%
Skuldsetningarhlutfall 58,6% 58,9%