Einar Sigurðsson, stjórnarformaður Ísfélagsins, gerði opinbera umræðu um afkomu í sjávarútvegi og gömul skrif forsætis- og fjármálaráðherra að umræðuefni í ávarpi sínu á aðalfundi Ísfélagsins á miðvikudaginn.
Einar sagði að það virðist vera sjálfstætt markmið einstakra aðila að horfa á rangar tölur þegar kemur að sjávarútvegi. Þannig hafi sumir vanið sig á að tala um EBITDA-rekstrarhagnað sem er afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta. Það eigi að vera til marks um getu greinarinnar til að greiða háa skatta.
Hann gerði í kjölfarið orð Kristrúnar Frostadóttur, forsætisráðherra, að sínum en hún skrifaði skýrslu um sjávarútveg árið 2011 þegar hún starfaði sem hagfræðingur hjá Arion banka.
„Hins vegar er ljóst að framlegð sjávarútvegs (EBITDA) segir ekki allt um stöðu atvinnugreinarinnar, eða einstakra fyrirtækja, þar sem ekki hefur verið tekið tillit til afskrifta né afborgana af skuldum eða fjárfestinga í greininni,“ segir í skýrslu Kristrúnar, sem Einar segir að eigi enn við í dag.
Hann benti í kjölfarið á að Ísfélagið, þ.e. sameinað félag Ramma og Ísfélags Vestmannaeyja, hefði fjárfest fyrir rétt undir 25 milljarða króna í öðru en veiðiheimildum, þ.e. skipum, vélum og tækjum, frá árinu 2015. Á sama tímabili greiddi félagið út 14,3 milljarða króna í arð.
„Þannig greiddi félagið 34,5% af hagnaði í arð en 60,2% af hagnaði í fjárfestingar á þessum 10 árum,“ sagði Einar.
„Það er því rétt sem forsætisráðherra sagði á sínum tíma, mikil hluti af framlegð fyrirtækjanna fer í fjárfestingar. Þessar fjárfestingar eru undirstaða góðrar afkomu og að bæði félagið og við sem þjóð, gerum sem best til að standa okkur í alþjóðlegri samkeppni.“
Einar sagði að það hljóti að leiða af miklum skattahækkunum að fyrirtæki í sjávarútvegi leitist við að nýta þessar fjárfestingar betur en „það verður eðlilega ekki alltaf sársaukalaust“.
„Ég spái því t.d. að það verði ekki tvær fiskimjölsverksmiðjur í Vestmannaeyjum og þrjár í Fjarðarbyggð eftir 5 ár.“
Tal um leiðréttingu hluti af áróðursherferð
Einar furðaði sig í kjölfarið á því að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar skyldu kalla fyrirhugaða tvöföldun veiðigjalda „leiðréttingu“.
„Leiðrétting á hverju er erfitt að reiða hendur á, því í gegnum tíðina hefur allt sem snýr að verðlagningu sjávarafurða legið fyrir. Það er því undarlegt að heyra fjármálaráðherra tala með þeim hætti sem hann gerir þegar lesið er það efni sem hann lét frá sér sem fræðimaður eða í störfum sínum fyrir stjórnvöld í gegnum tíðina."
Sú skipting á útflutningsverðmæti sem fer til útgerðar og vinnslu á Íslandi hafi verið svipuð í tugi ára og þess gætt að þar fari saman langtímahagsmunir veiða og vinnslu og þar með um leið íslensk sjávarútvegs.
„Þetta vita allir sem hafa kynnt sér málin, og er því tal um leiðréttingu hluti af áróðursherferð en engu öðru. Það vitna skrif forsætisráðherra og fjármálaráðherra í fortíðinni að þau vita þetta og vita betur en umræða undanfarna vikna vitnar til.
„Myndu líklega fella nemendur sína fyrir slík vinnubrögð“
Einar sagði varla hægt að ræða uppgjör Ísfélagsins án þess að ræða um rekstrarumhverfi greinarinnar og hvernig sjávarútvegur á Íslandi hefur tryggt samkeppnisstöðu sína.
„Þá verður ekki hægt að víkjast undan því að leiðrétta rangfærslur eða reyna svara fyrir staðreyndalausar bábiljur sem sífellt heyrast um sjávarútveginn. Og ekki síður þegar stjórnmálamenn ala á ónægju og ranghugmyndum, flestir vita betur en aðrir tala af vanþekkingu og hafa lítinn áhuga að kynna sér staðreyndir máls.
Þar virðast upphrópanir duga og jafnvel þeir sem eru hagfræðiprófessorar virðast láta slíkt duga, þó þeir myndu líklega fella nemendur sína fyrir slík vinnubrögð,“ sagði Einar.
Hann bætti við að flestir af þeim sem leiða landið hafi í gegnum tíðina talað með öðrum hætti og ábyrgari þegar kemur að sjávarútvegi.
Kristrún áður talað um mikilvægi fyrirsjáanleika
Einar rifjaði einnig upp eftirfarandi ummæli Kristrúnar á opnum ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) í fyrra, sem hann taldi sanngjörn og skynsamleg:
„Við erum að tala um það, getum við komist, á tíu ára tímabili, nær 20 milljörðum? Getum við skapað einhver skipti til þess að við losnum við þessa hræðslu að eftir hverjar kosningar verði stórkostlegar kerfisbreytingar,“ sagði Kristrún.
Einar benti þannig á að bæði Kristrún og Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra hefðu áður talað um mikilvægi fyrirsjáanleika „og annað sem allir geti tekið undir“.
„Það hljóta allir að sjá það þegar boðuð er tvöföldun veiðigjalda og umsagnarfrestur er sérstaklega styttur frá því sem eðlilegt getur talist að ekki stendur til að kafa ofan í málin og komast á sem bestri niðurstöðu,“ sagði Einar.
„Að kalla hækkun sem átti að tvöfalda veiðigjöldin en mun líklega gera mun meira en það leiðréttingu er út í hött. Það leiðréttist hér með og ætti að vera kölluð skattahækkun, skattahækkun sem bitnar mest á þeim fyrirtækjum sem starfa á landsbyggðinni og þeim fjárfestingum sem þau þurfa og stunda til að standa undir góðri afkomu og halda sinni samkeppnisstöðu. Staðreyndum og öðrum tölulegum upplýsingum sem hefur verið komið á framfæri við stjórnvöld og í umræðunni eru afgreiddar sem áróður. Það er líklega áróður í sjálfu sér að kalla öll málefnaleg rök sem sýna fram á rangfærslur og veikleika í tillögum stjórnvalda áróður.“