Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eigandi Blush, og Magnús Árnason gefa kost á sér til stjórnar Ölgerðarinnar. Auk þeirra gefa fjórir sitjandi stjórnarmenn kost á sér til endurkjörs. Jóhannes Hauksson, sem hefur setið í stjórninni fráárinu 2017, sóttist ekki eftir endurkjöri.

Þetta kemur fram í tilkynningu fyrir Ölgerðinni en aðalfundur fyrirtækisins verður haldinn á fimmtudaginn í höfuðstöðvum félagsins að Grjóthálsi 7-11 í Reykjavík.

Framboðsfrestur rann út þann 20 maí sl. og hafa eftirtaldir einstaklingar gefið kost á sér til setu í stjórn félagsins:

  • Októ Einarsson, stjórnarformaður
  • Hermann Már Þórisson, varaformaður stjórnar
  • Berglind Ósk Guðmundsdóttir, stjórnarmaður
  • Rannveig Eir Einarsdóttir, stjórnarmaður
  • Gerður Huld Arinbjarnardóttir
  • Magnús Árnason

Gerður Huld Arinbjarnardóttir stofnaði kynlífstækjaverslunina Blush árið 2011. Hún var valin markaðsmanneskja ársins 2021 af ÍMARK.

Magnús Árnason er sjálfstætt starfandi ráðgjafi hjá Marka ráðgjöf ehf. Magnús var á dögunum kjörinn í stjórn Nova en hann hafði áður starfað sem framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá fjarskiptafélaginu á árunum 2017-2022.