Daði Már Kristófersson, varaformaður Viðreisnar og prófessor í hagfræði við HÍ, gefur lítið fyrir fullyrðingar Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um að vextir hér á landi væru sambærilegir og í Evrópu ef hagvöxtur og launaþróun hefði þróast með svipuðum hætti undanfarin ár.
„Það er náttúrulega sérstakt að embættismenn blandi sér í pólitík. Sennilega ætlar hann að bjóða sig fram einhvers staðar og það er honum auðvitað heimilt,“ segir Daði í samtali við Viðskiptablaðið.
Viðskiptablaðið fjallaði í síðustu viku um erindi Ásgeirs á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga þar sem hann fór yfir stöðu efnahagsmála. Þar sagði Ásgeir að „ef við værum með evrópskan hagvöxt og ef við værum með evrópsk laun þá gætum við haft evrópska vexti, svo það sé alveg á hreinu“. Seðlabankinn væri að hreyfa vexti í samræmi við okkar efnahagslíf og að upptaka evru „sisona“ sé engin drög að lausn til að ná verðbólgunni og vöxtum hratt niður.
Daði segir að það sé ekkert til sem heiti „evrópskur hagvöxtur“. Það sé býsna fjölbreytt hvernig ríkjum reiði af innan stærri myntsvæða og hagvöxtur geti verið mjög mismunandi eftir Evrópuríkjum.
Sjálfur kýs hann að bera Ísland saman við Færeyjar, annað lítið opið hagkerfi sem reiðir sig að miklu leyti á sjávarútveg. Færeyjar séu hins vegar ekki með sjálfstæða mynt, heldur eru þau búin að vera með fastgengi við evru í gegnum dönsku krónuna frá því að Danir tóku það fyrirkomulag upp.
„Færeyjar eru með minna atvinnuleysi, lægri vexti, minni verðbólgu, lægri ríkisskuldir og meiri stöðugleika heldur en við.
Hvort Ásgeir var að vísa til Færeyja eða einhvers annars er ekki gott að segja, ég var ekki á þessum fyrirlestri hans. Hafi hann rétt fyrir sér þá geri ég auðvitað ráð fyrir því að það sé löng röð af fulltrúum erlendra ríkja í anddyrinu hjá honum að bíða eftir því að fá heimild til að taka upp krónuna, ef hún er þessi snilld sem að hann virðist halda,“ segir Daði.
Eins og að halda því fram að jörðin sé flöt
Í erindinu fór Ásgeir yfir samanburð á verðbólguskotinu hér á landi og í Evrópu á árunum 2021-2023. Verðbólgan í Evrópu hafi stafað af miklu leyti af gífurlegum hækkunum á gasverði en síðan „dáið út“ eftir að gasverð tók að lækka aftur. Erfiðara hafi hins vegar gengið að ná verðbólgu niður á Íslandi en þar hafi þættir á borð við vaxandi efnahagsumsvif og fólksfjölgun haft áhrif.
Spurður hvort það sé ekki rétt að taka tillit til þessara þátta í samanburði á verðbólguþróuninni hér á landi og í Evrópu, þá vísar Daði aftur í að hagvöxtur á mann hafi verið meiri í Færeyjum en á Íslandi auk þess að verðbólga þar hafi gengið hraðar niður.
„Mér finnst þetta vera svipað og þegar sumir ágætir Íslendingar halda því fram að það sé varasamt að flytja matvæli erlendis frá inn til Íslands, að það sé mikið skaðræði. Einhvern veginn virðast nú samt þessir 8 milljarðar sem búa á jörðinni lifa ágætu lífi án íslenskra landbúnaðarafurða. Mér finnst þetta svona heimatilbúnar skýringar.“
Hann segist upplifa forpokun í viðhorfi margra Íslendinga í umræðum um gjaldeyrismálum og hvort hægt sé að bæta kjör íslensku þjóðarinnar með upptöku annars gjaldmiðils.
„Mér finnst þetta svolítið eins og halda því fram að jörðin sé flöt. Ef þú skoðar skýrslur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fyrirkomulag gjaldeyrismála í heiminum, þá eru engin ríki af svipaðri stærð og Ísland sem velja okkar fyrirkomulag en lifa samt öll af,“ segir Daði.
„Svo finnst mér nú líka stundum gleymast að spyrja hversu margir myndu vinna í Seðlabanka ef Ísland yrði hluti af stærra myntsvæði?“
Ósammála því að vinnuafl hér sé ekki færanlegt
Skiptir samt ekki máli að hagkerfið sveiflist að einhverju leyti í takt við myntsvæðið sem það tilheyrir?
„Heldur þú að hagsveiflur í Alabama og Norður-Dakóta séu þær sömu? Bæði ríkin eru hluta af sama myntsvæði. Í okkar tilfelli myndu sumir segja að vinnuafl sé ekki færanlegt. Ég leyfi mér að vera ósammála því að þau rök standist að framleiðsluþættir hér séu ekki færanlegir.
Við höfum tekið á móti um 70 þúsund manns frá Evrópu til þess að vinna í íslenska hagkerfinu. Auk þess veit ég ekki betur en að í Covid hafi mjög stór hópur horfið aftur til síns heimalands.“
Þegar staða efnahagsmála í Þýskalandi - stærsta hagkerfi Evrópu sem dróst saman í fyrra og hagvaxtarhorfur eru verri en fyrir Covid – er borin undir Daða, þá segist hann ekki kannast við að upptaka evru feli í sér að hér yrði tekið upp þýskt stjórnkerfi eða að íslenska hagkerfið myndi erfa þeirra vandamál.
„Ég held, ef þú skoðar Evrópu, að þá séu þar alls konar hagkerfi. Sum þeirra ganga vel og sum ganga illa. Spurningin á endanum snýst ekki um það, heldur hvort að stöðugleiki í ytri skilyrðum sé mikilvægari heldur en sveigjanleikinn sem krónunni fylgir. Þar er á endanum empírísk spurning.“
Hvort kemur á undan?
Í aðdraganda síðustu þingkosninga sagði seðlabankastjóri, spurður um evruhugmyndir Viðreisnar á fundi FLE, að ef evran yrði tekin upp á Íslandi þá yrðu laun íslensks verkafólks að taka mið af launastiginu í Evrópu. Ef laun yrðu hækkuð meira hér en annars staðar, þá myndi kostnaður íslenskra fyrirtæki aukast meira en erlendis, samkeppnishæfni þeirra minnka og viðskiptahalli aukast.
Daði segist ekki ósammála Ásgeiri í þessum efnum og tekur undir að agi á vinnumarkaði skipti miklu máli. Hann spyr aftur á móti hvort það sé sveigjanleiki krónunnar sem skapi ákveðið agaleysi á vinnumarkaði sem erfitt sé að vinna bug á nema að losna við krónuna.
„Spurningin er bara hvað kemur á undan, agaleysi á vinnumarkaði sem afleiðing af óstöðugleika í ytri skilyrðum eða er það agaleysi á vinnumarkaði sem skapar óstöðugleika í ytri skilyrðum? Það er bara ekkert rosalega auðvelt að svara þeirri spurningu.“
Daði veltir fyrir sér hvort tilraunir Ásgeirs til að réttlæta hærra vaxtastig hér á landi út frá ólíkri launaþróun beri merki um að seðlabankastjóri hafi orðið fyrir sinnaskiptum um mikilvægi aga á vinnumarkaði.
„Ef hann er einhvern veginn að tala fyrir því að agaleysi sé bara fínt, það er þá einhver ný kenning í hagfræði. Laun geta ekki vaxið hraðar heldur en framleiðni í hagkerfinu leyfir.“
Þarf önnur hundrað ár?
Blaðamaður bar einnig undir Daða skoðun Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion banka, um að gefa krónunni tíma til að sanna ágæti sitt.
Benedikt, sem var varaformaður starfshóps stjórnvalda um losun fjármagnshafta á árunum 2013-206, sagði í hlaðvarpsþætti Chess after Dark í vor að eftir stöðugleikaframlögin, endurreisn fjármálakerfisins, losun gjaldeyrishafta og uppgang í þekkingargeiranum gefist nú tækifæri til að fylgjast með kostum og göllum krónunnar þegar aðstæður í íslensku hagkerfi eru í lagi.
„Ég er efins,“ segir Daði. „Er ekki nóg að hafa fylgst með krónunni síðustu hundrað árin eða telur hann þörf á öðrum hundrað árum? Ég held það sé fullreynt og það er raunar grátlegt að fylgjast með því hvað menn virðast lítið tilbúnir að ræða aðra eins grundvallarforsendu og þetta er.“
Hann tekur undir að það sé mjög jákvætt að fylgjast með vexti hugvitsiðnaðarins eða fjórðu stoðar íslenska hagkerfisins.
„Sú atvinnugrein á mjög erfitt með þær miklu sveiflur í raungengi sem krónan skapar. Við vitum að raungengið hefur verið að styrkjast og er að ná frekar óhugnanlegum hæðum. Það þrengir mjög að þessum fyrirtækjum sem eru í erlendri samkeppni.
Raunar myndi ég alltaf hafa áhyggjur af því að viðvarandi hátt vaxtastig og miklar langar sveiflur í raungengi geri það að verkum að góðar hugmyndir sem hefðu getað orðið að fyrirtækjum á Íslandi verða ekki að raunveruleika af því að það eru ekki forsendur til að fjármagna þær. Krónunni fylgir skuggakostnaður sem erfitt er að leggja mat á.“
Daði veltir fyrir sér hvort að það séu orsakatengsl sem skýri það að hugvitsgeirinn dafnaði á tímabili gjaldeyrishafta eftir fjármálahrunið, þar sem krónunni var beinlínis haldið stöðugri.
„Kannski gefur það vísbendingu en kannski voru fleiri ástæður. En þetta er það sem maður hefur alltaf áhyggjur af með lítið opið hagkerfi eins og Ísland í alþjóðavæddum heimi, að það sé erfitt að ná árangri ef ytri skilyrðin eru óstöðug.“
Í ofangreindum hlaðvarpsþætti sagði Benedikt Gíslason það vera staðreynd að krónan sé búin að vera ein stöðugasta myntin í Evrópu og verið á mjög þröngu bili gagnvart evru síðustu árin.
Daði segir að það kunni að vera satt. Engu að síður hafi það áhrif á hegðun markaðsaðila ef væntingar eru til þess að hún geti fallið og tekið miklar dýfur eins og hún hafi gert í gegnum tíðina.
„Þegar það er alltaf verið að kvarta yfir því að verðbólguvæntingar á Íslandi séu hærri og það sé erfiðara að ná þeim niður heldur en annars staðar, þá snýst það að einhverju leyti um efasemdir markaðsaðila um að ytri skilyrði haldist stöðug, af því að sagan kennir okkur annað.
Gætum við byggt upp orðspor krónunnar yfir lengri tímabil? Með verulegum aga er það kannski mögulegt en þá þarf flokk eins og Viðreisn í fjármálaráðuneytinu sem tekur þennan aga fram yfir önnur skammtíma pólitísk markmið. En hvenær er fullreynt með krónuna? Ég veit það ekki.“