Seðlabanka Íslands var í dag gert í Landsrétti að greiða Þorsteini Má Baldvinssyni , forstjóra Samherja, 2,7 milljónir króna í bætur í tengslum við sekt sem Seðlabankinn lagði á hann vegna meintra brota á gjaldeyrislögum án þess að viðhlítandi lagaheimild hafi verið fyrir álagningu sektarinnar. Seðlabankinn var hins vegar sýknaður af 306 milljóna bótakröfu Samherja . Vísir greindi fyrst frá dómsniðurstöðunni.

Með því var dómur Héraðsdóms staðfestur en auk þess var Seðlabankinn dæmdur til að greiða Þorsteini Má þrjár milljónir í málskostnað.

Samherji krafðist bóta vegna kostnað sem fyrirtækið hafi orðið fyrir vegna málsins, einna helst kostnaði við laun aðila sem unnu að málinu fyrir hönd Samherja. Vísir bendir á að þar af hafi 131 milljón vegna greiðslna til Jóns Óttars Ólafssonar.

sjá einnig: Saga Samherjamálsins

Dómsmálið snerist um rannsókn gjaldeyriseftirlits Seðlabankans á meintum brotum Samherja á gjaldeyrislögum. Seðlabankinn og sérstakur saksóknari réðust í húsleit á skrifstofum Samherja árið 2012. Sérstakur saksóknari vísaði málinu tvívegis aftur til Seðlabankans. Í fyrra skiptið, árið 2013 þar sem heimild skorti í lögum til að láta fyrirtæki bera refsiábyrgð fyrir brot á gjaldeyrislögum. Í það síðara, árið 2015, þegar málið beindist að stjórnendur Samherja, á þeirri forsendu að undirskrift ráðherra hefði vantað við setningu reglna um gjaldeyrismál í desember 2008.

Árið 2016 ákvað Seðlabankinn svo að sekta Samherja um 15 milljónir króna vegna meintra brota eftir að hafa áður boðið Samherja að ljúka málinu með sátt og 8,5 milljóna króna sektargreiðslu, sem Samherji hafnaði. Samherji skaut sektinni til dómstóla og komst Héraðsdómur að þeirri niðurstöðu árið 2018 að Seðlabankanum hafi veri óheimilt að sekta Samherja þar sem málið hafi áður verið látið niður falla. Hæstiréttur staðfesti þá niðurstöðu árið 2018.