Samkeppniseftirlitið (SKE) tilkynnti í dag um bráðabirgðaákvörðun „vegna sennileg brots Símans á samkeppnislögum“ með því að synja Nova um heildsölu og dreifingu á Símanum Sport sem sinnir útsendingum á enska boltanum.
Í bráðabirgðaákvörðun sinni beinir SKE þeim fyrirmælum til Símans að láta af háttsemi sinni og gera þegar samning við Nova um heildsölu og dreifingu á Símanum Sport. Síminn segir ákvörðunina byggja á misskilningi og kveðst ósammála henni að öllu leyti. Fjarskiptafélagið íhugar nú réttarstöðu sína vegna málsins.
SKE segir Símann mismuna Nova
Í tilkynningu SKE segir að frá því að Síminn tryggði sér sýningarétt á ensku úrvalsdeildinni árið 2019 hafi Sýn og Nova einnig getað boðið upp á þjónustuna í stakri áskrift með því að kaupa efnið í heildsölu af Símanum. Nú hafi Síminn hins vegar neitað gera nýjan dreifingarsamning við Nova um útsendingar á Símanum Sport.
„Samkeppniseftirlitið telur að í háttsemi Símans felist sölusynjun fyrirtækis sem býr yfir mikilvægri og vinsælli vöru til endursölu og að það myndi fela í sér skaðleg áhrif fyrir samkeppni á fjarskipta- og sjónvarpsmörkuðum hér á landi ef Nova gæti ekki lengur boðið sínum viðskiptavinum upp á Enska boltann.
Þá telur eftirlitið að háttsemi Símans feli í sér mismunun gagnvart keppinautum þar sem Sýn fær áfram að bjóða sínum viðskiptavinum Enska boltann en ekki Nova.“
SKE segist líta svo á að Síminn sé markaðsráðandi á markaði fyrir heildsöludreifingu á Enska boltanum og að háttsemi fyrirtækisins fari gegn ákveði samkeppnislega. „Samkeppniseftirlitið telur að umrædd háttsemi grundvallist hvorki á málefnalegum né hlutlægum forsendum.“
Síminn segir kröfur Nova einkennilegar
Síminn hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins og segist ósammála ákvörðun SKE að öllu leyti „enda byggir hún á misskilningi um dreifingu sjónvarpsefnis og kaup og endursölu á slíku efni“. Ákvörðunin hafi að auki engin áhrif á samkeppni á fjarskipta- eða sjónvarpsmarkaði nema að letja til aukinnar framleiðslu og kaupa á efni að mati Símans.
„Sjónvarpsþjónustur keppa á aðgreiningu með sjónvarpsefni, efni sem aðilar fjárfesta í eða kaupa á opnum markaði sem Nova hefur kosið að taka ekki þátt í og þannig þykir Símanun einkennilegt að Nova geri þá kröfu að byggja samkeppnisgrundvöll sinn á því að fá aðgang að því myndefni sem aðrir aðilar hafa þegar keypt á opnum markaði.
Nova tekur enga áhættu eða þarf að ná upp í kostnað heldur telur sig eiga rétt á fá aðgang að sjónvarpsefni sem eigendur þess hafa fyrir samið um við aðra um að dreifa fyrir þeirra hönd án allrar fyrirhafnar. Rétt eins og Síminn á ekki kröfu á efni Netflix eða Disney sem þau hafa fjárfest í og eiga réttinn á.“
Síminn segir að viðskiptavinir Nova hafi greiðan aðgang að Símanum Sport óháð ákvörðun SKE. Síminn Sport sé aðgengilegt öllum neytendum á Íslandi óháð því hvar þeir versla fjarskiptaþjónustu sína.
„Aðgengi að efninu hefur aldrei verið betra og sjónvarpsapp Nova er með engu móti leikbreytir í að koma efninu til áhugasamra neytenda,“ segir í tilkynningu Símans.
„Ákvörðun SKE lýtur þannig ekki að því að gera viðskiptavinum Nova kleift að horfa á Símann Sport, enda hafa þeir alla möguleika á því líkt og viðskiptavinir allra annarra fjarskiptafyrirtækja. Ákvörðunin lýtur að því að Símanum beri að afhenda Nova sjónvarpsrásina til endursölu til sinna viðskiptavina. Byggir Síminn á því að félaginu geti ekki með nokkru móti borið skylda til þess og íhugar nú réttarstöðu sína.“