Sérfræðingur hjá Opnum kerfum (OK) segir að fyrirtæki eigi að varast að láta gervigreind vinna með viðkvæm gögn í skýinu. Öruggara sé að nýta netþjóna til þess að koma í veg fyrir að gögnin fari á flakk á netinu.

Björgvin Arnar Björgvinsson, forstöðumaður Innviðalausna OK, segir að gervigreindin virki ekki ein og sér og þurfi utanaðkomandi gögn til að vinna með og læra á.

„Gervigreind er til í ótal mörgum útgáfum og spannar mjög vítt svið. Við þekkjum mörg til dæmis það kallað er Generative AI, gervigreind, sem býr til texta, myndir eða tónlist. Þar er til dæmis notast við ChatGPT; spjallmenni sem fólk getur haft samskipti við og svarar svo spurningum um alls konar hluti, býr til texta og myndir. Öll vitneskjan sem ChatGPT býr yfir er komin frá internetinu og hugsanlega einhverjum gögnum sem við hlöðum yfir í gervigreindaröpp.“

Hann bætir við að fartölvur séu komnar með sérstaka AI-örgjörva og hugbúnað eins og AI Companion þar sem notandi getur hlaðið inn 2000 blaðsíðna pdf-skjali og beðið um 300 orða samantekt úr skjalinu eða spurt um einstök atriði úr efni skjalsins.

Viðkvæm gögn eiga síður heima í skýinu

Björgvin segir að fyrirtæki vilji eflaust nýta sér gervigreind til að taka fyrstu ákvarðanir, spá fyrir og sjálfvirknivæða án þess að hlaða viðkvæmum gögnum yfir í skýið.

„Þar á meðal eru fjármálafyrirtæki, tryggingafélög, sjúkrahús eða orkufyrirtæki sem vilja nota gervigreindina með þessum hætti. Í mörgum tilvikum eru slíkar upplýsingar, sem gervigreindin á að nýta, trúnaðargögn sem ekki er viturlegt að senda frá sér.“

Sem dæmi nefnir hann banka sem vill nota gervigreind til að sjálfvirknivæða umsóknarferli eða tryggingafélag sem vilji gera betri áhættumöt.

„Þá þurfa fyrirtækin að koma sér upp tækjabúnaði til þess að keyra gervigreindarvirkni innanhúss hjá sér. Forritarar nútímans og framtíðarinnar eru farnir að búa til lausnir til þess að leysa svona gervigreindarverkefni.“

Andlitsgreina áratuga gömul myndskeið

Sjónvarpsmiðlar eru annað dæmi en þeir eiga til að mynda ógrynni af myndskeiðum sem er búið að taka í gegnum tíðina.

„Það væri alveg hugsanlegt að láta gervigreindarforrit skoða þessi myndskeið og beita einhvers konar andlitsgreiningu til að skrá í gagnagrunn hverjir koma fyrir í þessum myndskeiðum, eða að láta sjúkrahús skoða röntgenmyndir og aðstoða við greiningu á þeim. Þessi greining kæmi vitanlega ekki í staðinn fyrir auga læknisins en hægt væri að láta gervigreind læra á slíkar myndir og fá fyrsta stigs niðurstöðu.“

Björgvin bendir á að vel sé hægt að tryggja öryggi fyrirtækja þegar notkun á gervigreind er annars vegar.

„HP og Nvidia eru í mjög öflugu samstarfi í þróun á netþjónum sem eru búnir nauðsynlegum gervigreindarörgjörvum, sem þarf til þess að leysa fyrrgreind verkefni. Slíkir netþjónar frá HP koma í nokkrum stærðum, með GPU-netþjónum, hraðvirkum gagnageymslum og netbúnaði til að tengja saman ásamt öflugri hugbúnaðarsvítu sem inniheldur margs konar verkfæri til þess að þróa áfram.“