Bolt tilkynnti á dögunum að það hefði opnað rafhlaupahjólaleigu í Reykjavík. Fyrst um sinn verða 800 Bolt 5-rafhlaupahjól í Reykjavík og þurfa ökumenn að vera 16 ára eða eldri til að geta nýtt sér þjónustuna, eins og gengur og gerist með slík ökutæki.
Martin Tansøy, rekstarstjóri Bolt, segir Reykjavík afar áhugaverða borg. Fólk frá Íslandi hiki ekki við að aka rafhlaupahjólum allan ársins hring svo lengi sem akstursskilyrði séu örugg.
„Fyrirfram myndi maður kannski halda að rafhlaupahjól séu lítið notuð í Reykjavík stærstan hluta ársins. En það þarf að hafa það í huga að fólk frá landi eins og Íslandi er mjög vant kuldanum. Það hikar ekki við að aka rafhlaupahjólum í janúar, jafnvel þó það sé undir frostmarki, svo lengi sem akstursskilyrði eru örugg og það er ekki of mikill snjór. Þess vegna finnst okkur Reykjavík áhugaverð borg. Þá er töluverður fjöldi fólks sem býr í borginni og mikið af ferðamönnum sem heimsækja hana.“
Martin bætir við að innviðir séu til fyrirmyndar í Reykjavík. Það sé raunhæft í einhverjum tilvikum fyrir fólk að nota rafhlaupahjól í stað einkabílsins.
„Það eru góðir innviðir í borginni, góðir hjólastígar og breiðar gangstéttir. Það gerir það að verkum að það er hægt að ferðast með rafhlaupahjóli í gegnum borgina alla á tiltölulega skömmum tíma, sem er mikill kostur fyrir fólk sem vill nota hjólin í stað einkabílsins. Borgin er jafnframt með skynsamlegt regluverk sem gerir fyrirtækjum kleift að reka eins mörg hjól og þeim sýnist svo lengi sem það er góð nýting á flotanum.“
Gervigreind komi í veg fyrir illa lögð hjól
Bolt notast við gervigreind til að tryggja að hjólunum sé vel lagt að loknum akstri. Gervigreindin greinir myndina sem ökumaðurinn tekur í lok ferðar og kemur í veg fyrir að ferðinni sé lokið ef illa er lagt.
„Bolt er leiðandi í þróun nýrrar tækni í þessum geira og hefur þróað þessa tiltekna tækni í nokkur ár. Með gervigreind þurfum við ekki lengur að eyða klukkustundum saman við að fara í gegnum þúsundir mynda og greina á milli hvaða hjól eru vel eða illa lögð.
Í hjólunum er einnig innstillt kerfi sem mælir viðbragðstíma ökumannsins og er hugsað til þess að koma í veg fyrir ölvunarakstur.
Nánar er rætt við Martin í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.