Trausti Eiríksson, sölustjóri hjá OK, segir að gervigreindin sé nú farin að læra á hegðun notanda ásamt því að auka rafhlöðuendingu og bæta frammistöðu tölva án þess að draga úr afköstum.

Hann segir að miklar uppfærslur hafi orðið á nýjustu tölvunum með aukinni áherslu á gervigreind.

„Gervigreindin hjálpar okkur meira og meira. Það er kominn sérstakur „CoPilot” hnappur á lyklaborðið fyrir slíka vinnu. Rafhlöðuending eykst töluvert svo dæmi sé tekið. Gervigreindin er einnig nýtt til þess að besta notkun á hljóðnemum og skapar ákveðna hljóðvörn gagnvart utanaðkomandi hljóðum sem bætir gæði fjarfunda til muna.”

Nýr örgjörvi bara fyrir gervigreind

Trausti segir að sem dæmi hafi HP tölvuframleiðandinn þróað svokallaða Smart Sense-lausn sem byggir á gervigreind og skiptir á milli þæginda og frammistöðu byggða á notkunarhegðun.

„Tölvurnar læra notkunarmynstur notandans til að auka rafhlöðuendingu. Tölvan áttar sig á því hvenær notandinn þarf á auknum krafti að halda, hvenær rólegri vinna á sér stað og hvenær er líklegast að notandinn nýti sér hraðhleðslu. Slíkt eykur bæði líftíma vélarinnar, rafhlöðu og bætir upplifun notandans. Notendur þurfa ekki að velta þessu neitt fyrir sér, tölvan sér algjörlega um þessa hluti.”

Þessu til viðbótar eru nýjar vélar með „Intel Core Ultra“ örgjörva. Þessi nýja tegund örgjörva er öflugri en áður hefur þekkst. Stærsta breytingin er að öll gervigreindarvinna er framkvæmd með sérstaklega hönnuðum hluta örgjörvans sem einblínir á gervigreind. Slíkt stýrir álagi tölvunnar betur og eykur einnig afköst í öðrum verkefnum.