Ceedr kynnir nýja gervigreind sem er sérhönnuð til að svara spurningum um alþingiskosningarnar 2024. Gervigreindin hefur fengið nafnið Spjallgrímur og hægt er að spyrja hann um nánast hvað sem er varðandi kosningarnar á mannamáli.

Spjallmennið byggir á gervigreind með það að leiðarljósi að hjálpa fólki að móta sér upplýstari skoðanir í komandi kosningum. Spjallgrímur er fyrsta kosningaspjallmenni sinnar tegundar hér á landi og er hannað til þess að koma alþingiskosningum yfir á mannamál.

„Okkur langaði að aðstoða þau sem lítið vita um pólitík við að finna upplýsingar á einfaldan hátt. Hugmyndin kviknaði við matarborðið, þegar umræða um Kragann kom upp og í ljós kom að það eru ekkert öll sem vita hvað það er,“ segir Haukur Jarl Kristjánsson, hugmyndasmiður Spjallgríms.

Spjallgrímur er mjög ólíkur spjallforritum eins og ChatGPT þótt vissulega sé hann byggður á því forriti. Upplýsingarnar sem hann sækir eru sérsniðnar og styður Spjallgrímur eingöngu við gögn sem tengjast alþingiskosningunum.

Upplýsingarnar sækir Spjallgrímur til vefsíðna stjórnmálaflokkanna, Wikipedia og tölfræðigagna frá Gallup, Maskínu og Prósent. Fréttir eru uppfærðar á tveggja tíma fresti og öll tölfræði er uppfærð á föstudögum klukkan 20:00.

„Við vonumst til að geta að einhverju leyti upplýst fólk á einfaldan hátt um allt sem það langar að vita áður en það tekur upplýsta ákvörðun í komandi kosningum,“ segir Hreggviður Steinar Magnússon, framkvæmdastjóri Ceedr.