Íslenska fyrirtækið ITHG Dental AI var stofnað á síðari hluta síðasta árs en hugmyndin var að nýta gervigreind til að bæta bæði greiningar og rekstur tannlæknastofa. Félagið hefur vaxið hratt síðan þá og hefur nú opnað dyr bæði í Evrópu og í Bandaríkjunum.

Stofnendur félagsins eru þeir Indriði Þröstur Gunnlaugsson og Guðjón Þór Guðmundsson, sem er jafnframt stofnandi Núllarans, fyrirtækisins sem hefur vakið mikla athygli með áfengislausum drykkjum.

Indriði, sem er með áratuga alþjóðlega reynslu í nýsköpun og tæknigeiranum, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hugmyndin hafi kviknað eftir samtal við Gunnlaug Jón Rósarsson, sérfræðing í tann- og munnsjúkdómum og kennara við Háskóla Íslands.

Hann segir að þeir hafi rætt stöðu núverandi lausna á markaðnum og að Gunnlaugur hafi bent Indriða á að engin gervigreindarlausn væri til staðar sem tæki á öllum þáttum reksturs tannlækna.

„Gunnlaugur sá því gríðarleg tækifæri í að nýta gervigreind til að bæta bæði greiningar og rekstur tannlæknastofa og hefur síðan þá verið virkur í þróunarvinnu okkar,“ segir Indriði, sem ræddi einnig við Garnes Data, sem þjónustar fjölda tannlækna á Íslandi og í Noregi, og staðfestu þeir að tannlæknar væru í leit að nútímalegri lausn.

ITHG Dental AI nýtir gervigreind í bókun og röntgenmyndagreiningu en virkar í raun sem heildarlausn fyrir tannlækna. Hugmyndin er þá að sjálfvirknivæða rekstur tannlækna þannig að þeir geti betur einbeitt sér að sjúklingum sínum.

„Eftirspurnin er enn meiri í Bandaríkjunum en markaðurinn þar nær yfir 186.000 tannlæknastofur.“

Núverandi markaðsráðandi lausn, Opus Dental, er norsk en Indriði segir að hún hafi staðið í stað í mörg ár. Indriði og Guðjón vildu því skoða hvar möguleg tækifæri lægju þar sem þeim fannst markaðurinn vera fastur í gamalli hugsun.

„Í fyrstu skoðuðum við samstarf við Opus Dental, en þegar ljóst var að áhugi á samstarfi var lítill tókum við þá ákvörðun að byggja upp nýtt, nútímalegt kerfi frá grunni, með gervigreind sem grunnstoð.“

Indriði segir að það séu hátt í 300 þúsund tannlæknastofur í Evrópu sem þurfi á uppfærðum stafrænum lausnum, ekki síst vegna MDR (Medical Device Regulation) og GDPR-reglugerða, sem krefjast nútímalegra öryggiskerfa.

„Eftirspurnin er enn meiri í Bandaríkjunum en markaðurinn þar nær yfir 186.000 tannlæknastofur og veltir 162 milljörðum dollara á ári. Við erum nú í viðræðum við Garnes Data á Íslandi og Noregi varðandi þjónustu og sölu, en erum einnig að opna skrifstofu í Raleigh í Norður-Karólínu í vor, í samstarfi við Íslandsstofu, Raleigh-borg og NC State. Það mun marka stórt skref í alþjóðlegri stækkun fyrirtækisins.“