Arctic Adventures segir að nýtt gervigreindar spjallmenni sem var nýlega tekið í notkun hafi gjörbreytt landslagi ferðaþjónustunnar.

Í tilkynningu segir að fyrirtækið hafi ekki aðeins bætt þjónustu sína við viðskiptavini, heldur flýtir tæknin verulega fyrir henni, greini ný tækifæri og einfaldi flókin úrlausnarefni.

„Þetta sérhæfða spjallmenni þekkir okkur út og inn, sama hvort um er að ræða verð, framboð, bókanir, vöruúrval eða hvar ný tækifæri liggja. Það aðstoðar viðskiptavini með upplýsingar um ferðir, leiðbeinir með hvar þeir verða sóttir og þeim skilað og gerir okkur kleift að forgangsraða, greina og flokka þjónustumál,“ segir Birkir Björnsson, framkvæmdastjóri upplýsingatækni Arctic Adventures.

Spjallmennið er meðal annars nýtt til að greina öll þjónustumál, forgangsraða og greina tegund og skapi þannig víðtækan gagnagrunn sem sé ómetanlegur í því síbreytilega umhverfi sem mannlegar þarfir ferðamanna skapi.

Spjallmennið byggir á nýrri kynslóð gervigreindar sprotafyrirtækisins Snjallgagna, sem þróar hugbúnað til að nýta gervigreind til að bæta sölu, rekstur og þjónustu, en meginvara fyrirtækisins, Context Suite, kom á markað undir lok síðasta árs.

„Það eru forréttindi að vinna með jafn framsæknu fyrirtæki og Arctic Adventures, sem ætlar sér greinilega stóra hluti. Með tilkomu spjallmennisins eykur fyrirtækið ekki aðeins þjónustu sína, heldur sparar líka tíma viðskiptavina og starfsmanna og minnkar kostnað,“ segir Stefán Baxter, framkvæmdastjóri Snjallgagna.