Gestur Pétursson, forstjóri PCC BakkiSilicon, hefur sagt starfi sínu lausu og mun hann hætta störfum um leið og nýr forstjóri verður ráðinn í hans stað.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá PCC BakkiSilicon á Húsavík en samhliða því tilkynnir stjórnarráðið að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur skipað Gest í embætti forstjóra Umhverfis- og orkustofnunar.
Alþingi samþykkti í júlí frumvörp um nýja Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndarstofnun. Ný Umhverfis- og orkustofnun tekur við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfisstofnunar, en Náttúruverndarstofnun tekur við Vatnajökulsþjóðgarði og starfsemi náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar auk lífríkis- og veiðistjórnunarhluta hennar.
Gestur hefur verið forstjóri PCC Bakki Silicon frá árinu 2022 en hann var áður framkvæmdastjóri Veitna.
Gestur lauk meistaragráðu í iðnaðar- og rekstrarverkfræði með áherslu á orkumál og áhættustýringu frá Oklahoma State University í Bandaríkjunum árið 1998.
Sigrún forstjóri nýrrar Náttúruverndarstofu
Samhliða þessu tilkynnir stjórnarráðið að Sigrún Ágústsdóttir verði forstjóri nýrrar Náttúruverndarstofnunar en hún hefur verið forstjóri Umhverfisstofnunar frá árinu 2020.
Hún var sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun frá árinu 2008 og var auk þess staðgengill forstjóra áður en hún var skipuð í embætti forstjóra stofnunarinnar.

© Aðsend mynd (AÐSEND)
Umhverfis- og orkustofnun og Náttúruverndarstofnun taka til starfa 1. janúar 2025.