Samkvæmt nýrri greiningu Financial Times, byggðri á könnun meðal evrópskra hagfræðinga, gæti þýska ríkið aukið skuldir sínar um allt að 1.900 milljarða evra næsta áratuginn án þess að draga úr hagvexti.
Þetta myndi hækka skuldir ríkisins úr 63% af landsframleiðslu í 86% en halda Þýskalandi innan viðmiða um sjálfbæra skuldsetningu.
Friedrich Merz, leiðtogi kristilegra demókrata og verðandi kanslari,hefur kynnt áætlanir um að auka fjárfestingar í innviðum og varnarmálum.
Hagfræðingar telja að slíkar fjárfestingar séu nauðsynlegar til að styrkja efnahag landsins eftir margra ára stöðnun.
Jesper Rangvid, prófessor við Kaupmannahafnarviðskiptaháskóla, segir að Þýskaland hafi svigrúm til að auka skuldir „á ábyrgan hátt“ og fjármagna brýnar úrbætur, meðal annars á járnbrautakerfi, stafrænum innviðum og varnarmálum.
Hagfræðingar leggja áherslu á að aukin skuldsetning þurfi að fara saman með umbótum sem auka framleiðni.
Marcello Messori, prófessor við European University Institute í Flórens, segir mikilvægt að fjármagnið verði notað til að styðja við hátækniiðnað og græna umbreytingu efnahagsins.
Lorenzo Codogno, fyrrverandi yfirmaður hagfræðideildar ítalska fjármálaráðuneytisins, bendir á að þýska hagkerfið byggist of mikið á „flókinni en úreltri“ framleiðslu. Þýskaland þurfi að skapa hagstæðara umhverfi fyrir nýsköpun og hátækniiðnað til að tryggja langtímavöxt.
Öllum 41 hagfræðingunum sem svöruðu spurningu um þýska skuldahemilinn fannst nauðsynlegt að draga úr reglunni, sem takmarkar nýjar skuldir við 0,35% af landsframleiðslu.
Um 70% aðspurðra vilja annaðhvort stóra yfirhalningu eða afnám hennar, en enginn lagðist gegn breytingum.
Martin Moryson, yfirhagfræðingur hjá þýska eignastýringarfyrirtækinu DWS, segir að „þýsk þráhyggja um fjármálalega íhaldsemi sé orðin of mikil“ og að nauðsynlegar umbætur séu löngu tímabærar.
Þrátt fyrir þessar niðurstöður virðist ný ríkisstjórn Þýskalands ekki einblína á efnahagslegar umbætur.
Á laugardag kynntu líklegir stjórnarflokkar áform um aukin ríkisútgjöld, þar á meðal hærri lífeyrisgreiðslur fyrir heimavinnandi mæður, lækkaðan virðisaukaskatt á veitingahús og eldsneytisstyrki fyrir bændur.
Þingmenn Græningja hafa á hinn bóginn lýst sig andsnúna áætlunum Merz um að flytja varnarmálaútgjöld út fyrir skuldahemilinn. Slík breyting krefst stjórnarskrárbreytingar og tveggja þriðju hluta stuðnings í efri deild þýska þingsins, Bundesrat.
Á meðan sumir hagfræðingar telja að Þýskaland hafi verulegt svigrúm til að auka skuldir sínar og fjárfesta í hagvexti, standa pólitískar hindranir í vegi fyrir stórfelldum breytingum á fjárlagareglum landsins.
Það er því enn óljóst hvort Merz muni geta nýtt fjárhagslegt svigrúm Þýskalands til að stuðla að nýsköpun og hagvexti eða hvort aukin ríkisútgjöld fari í hefðbundnari félagsleg verkefni.