Gullverð hefur hækkað verulega á síðustu vikum og stóð hæst í 2.931,80 dölum á únsu á föstudaginn sl. Þessi mikla hækkun hefur vakið umræður meðal fjárfesta og greinenda um hvaða áhrif hún geti haft á alþjóðlega efnahagsmálaumræðu og fjárhagsstöðu Bandaríkjanna.
Ein slík umræða hefur snúist um mögulegt endurmat bandaríska ríkissjóðsins á gullforða sínum, sem gæti leitt til þess að bókfært virði eigna ríkissjóðs myndi aukast um allt að 800 milljarða dali.
Bókfært á 42 dali á únsu síðan 1973
Ríkissjóður Bandaríkjanna heldur utan um umtalsverðan gullforða, um 261,5 milljónir únsa, sem hefur verið bókfærður á aðeins 42,22 dali á únsu síðan 1973.
Þetta var ákveðið í kjölfar þess að gullfóturinn var afnuminn árið 1971 og dollarinn varð fljótandi gjaldmiðill.
Þrátt fyrir að markaðsvirði gulls hafi hækkað mikið frá þeim tíma hefur bókfært virði þess í reikningum ríkissjóðs staðið í stað.
Richard Nixon, þáverandi forseti Bandaríkjanna, ákvað að festa bókfærða virðið til að tryggja að gull yrði ekki notað sem gjaldmiðlatenging aftur og yrði óaðgengilegt sem fjármögnunarleið fyrir ríkissjóðs.
Samkvæmt frétt Financial Times hafa nokkrir fjárfestar og hagfræðingar nú bent á að með því að færa virði gullforðans í bókum ríkissjóðs í samræmi við markaðsverð gæti ríkið aukið verulega virði gullforðans, eða um sem nemur allt að 800 milljörðum dala.
Þessi færsla gæti enn fremur haft áhrif á skuldabréfamarkaðinn og fjármögnun ríkissjóðs.
Minni þörf á skuldabréfaútgáfu?
Fjárfestar og greinendur telja að mögulegt endurmat á gullforðanum gæti dregið úr þörf bandaríska ríkisins á að gefa út ný ríkisskuldabréf. Bandaríkin standa frammi fyrir vaxandi fjárlagahalla og stórri skuldabyrði, og endurmat gæti veitt ríkissjóði svigrúm til að fjármagna sig með öðrum hætti en að auka skuldabréfaútgáfuna.
David Teeters, hagfræðingur við IESE-viðskiptaháskólann, bendir á að slík breyting myndi „sjálfkrafa draga úr skuldsetningu bandaríska ríkisins“ án þess að raunverulegar skuldir hækki.
Þá hefur Scott Bessent fjármálaráðherra gefið í skyn að ríkisstjórnin hyggist „gera eignarhlið ríkisfjármálanna að tekjulind“ – eða leggja áherslu á að auka virði eigna til viðbótar við að halda skuldasöfnuninni í skefjum.
Áhrif á alþjóðlega gjaldeyrismarkaði
Hugmyndin um að endurmeta gullforða Bandaríkjanna hefur einnig verið hluti af stærri umræðu um stöðu bandaríska dollarins í alþjóðakerfinu.
Greinendur á markaði, þar á meðal Luke Gromen, hafa haldið því fram að ríkisstjórn Trumps vilji stuðla að lækkun dollarans en á sama tíma viðhalda stöðu hans sem forðagjaldmiðils heimsins.
Ef gullverð héldi áfram að hækka gæti það veitt aukið svigrúm fyrir bandarískan ríkissjóð og haft áhrif á væntingar markaðarins um framtíð gjaldmiðilsins.
Einn möguleiki sem hefur verið ræddur er að ríkissjóður láni sjálfum sér gullið með endurkaupum (e. repurchase agreement).
Í slíkri aðgerð gæti ríkissjóður endurmetið gullforðann í samræmi við markaðsverð og notað það sem veð fyrir eigin fjármögnun.
Þessi leið gæti veitt ríkissjóði skammtíma lausafé án þess að raunverulega auka skuldir. Aðgerðin gæti þó einnig skapað óvissu á skuldabréfamarkaði, ef fjárfestar tækju slík skref sem merki um að hefðbundnar aðferðir ríkisfjármálastjórnunar væru ekki lengur fullnægjandi.
Þrátt fyrir að ekki sé ljóst hvort ríkisstjórnin muni framkvæma slíkt endurmat sýnir þessi umræða að fjármálastefna Bandaríkjanna gæti tekið nýja stefnu í kjölfar síhækkandi gullverðs.
Ljóst er að fjárfestar og greinendur fylgjast grannt með mögulegri stefnubreytingu bandarískra stjórnvalda í þessum efnum.