Gull­verð hefur hækkað veru­lega á síðustu vikum og stóð hæst í 2.931,80 dölum á únsu á föstudaginn sl. Þessi mikla hækkun hefur vakið um­ræður meðal fjár­festa og greinenda um hvaða áhrif hún geti haft á alþjóð­lega efna­hags­málaumræðu og fjár­hags­stöðu Bandaríkjanna.

Ein slík um­ræða hefur snúist um mögu­legt endur­mat bandaríska ríkis­sjóðsins á gull­forða sínum, sem gæti leitt til þess að bók­fært virði eigna ríkis­sjóðs myndi aukast um allt að 800 milljarða dali.

Bók­fært á 42 dali á únsu síðan 1973

Ríkissjóður Bandaríkjanna heldur utan um um­tals­verðan gull­forða, um 261,5 milljónir únsa, sem hefur verið bók­færður á aðeins 42,22 dali á únsu síðan 1973.

Þetta var ákveðið í kjölfar þess að gull­fóturinn var af­numinn árið 1971 og dollarinn varð fljótandi gjald­miðill.

Þrátt fyrir að markaðsvirði gulls hafi hækkað mikið frá þeim tíma hefur bók­fært virði þess í reikningum ríkis­sjóðs staðið í stað.

Richard Nixon, þáverandi for­seti Bandaríkjanna, ákvað að festa bók­færða virðið til að tryggja að gull yrði ekki notað sem gjald­miðla­tenging aftur og yrði óað­gengi­legt sem fjár­mögnunar­leið fyrir ríkis­sjóðs.

Sam­kvæmt frétt Financial Times hafa nokkrir fjár­festar og hag­fræðingar nú bent á að með því að færa virði gull­forðans í bókum ríkis­sjóðs í samræmi við markaðsverð gæti ríkið aukið verulega virði gullforðans, eða um sem nemur allt að 800 milljörðum dala.

Þessi færsla gæti enn fremur haft áhrif á skulda­bréfa­markaðinn og fjár­mögnun ríkissjóðs.

Minni þörf á skulda­bréfaút­gáfu?

Fjárfestar og greinendur telja að mögu­legt endur­mat á gull­forðanum gæti dregið úr þörf bandaríska ríkisins á að gefa út ný ríkis­skulda­bréf. Bandaríkin standa frammi fyrir vaxandi fjár­laga­halla og stórri skulda­byrði, og endur­mat gæti veitt ríkissjóði svigrúm til að fjár­magna sig með öðrum hætti en að auka skulda­bréfaútgáfuna.

David Teeters, hag­fræðingur við IESE-við­skipta­háskólann, bendir á að slík breyting myndi „sjálf­krafa draga úr skuld­setningu bandaríska ríkisins“ án þess að raun­veru­legar skuldir hækki.

Þá hefur Scott Bes­sent fjár­málaráðherra gefið í skyn að ríkis­stjórnin hyggist „gera eignar­hlið ríkis­fjár­málanna að tekju­lind“ – eða leggja áherslu á að auka virði eigna til viðbótar við að halda skuldasöfnuninni í skefjum.

Áhrif á alþjóð­lega gjald­eyris­markaði

Hug­myndin um að endur­meta gull­forða Bandaríkjanna hefur einnig verið hluti af stærri um­ræðu um stöðu bandaríska dollarins í alþjóða­kerfinu.

Greinendur á markaði, þar á meðal Luke Gro­men, hafa haldið því fram að ríkis­stjórn Trumps vilji stuðla að lækkun dollarans en á sama tíma viðhalda stöðu hans sem forða­gjald­miðils heimsins.

Ef gull­verð héldi áfram að hækka gæti það veitt aukið svigrúm fyrir bandarískan ríkissjóð og haft áhrif á væntingar markaðarins um framtíð gjald­miðilsins.

Einn mögu­leiki sem hefur verið ræddur er að ríkissjóður láni sjálfum sér gullið með endurkaupum (e. repurchase agreement).

Í slíkri að­gerð gæti ríkissjóður endur­metið gull­forðann í samræmi við markaðsverð og notað það sem veð fyrir eigin fjár­mögnun.

Þessi leið gæti veitt ríkissjóði skammtíma lausafé án þess að raunverulega auka skuldir. Aðgerðin gæti þó einnig skapað óvissu á skulda­bréfa­markaði, ef fjár­festar tækju slík skref sem merki um að hefðbundnar að­ferðir ríkis­fjár­mála­stjórnunar væru ekki lengur fullnægjandi.

Þrátt fyrir að ekki sé ljóst hvort ríkis­stjórnin muni fram­kvæma slíkt endur­mat sýnir þessi um­ræða að fjár­mála­stefna Bandaríkjanna gæti tekið nýja stefnu í kjölfar síhækkandi gull­verðs.

Ljóst er að fjárfestar og greinendur fylgjast grannt með mögulegri stefnubreytingu bandarískra stjórnvalda í þessum efnum.