Myndabankinn Getty Images hefur náð samkomulagi um kaup á samkeppnisaðila sínum Shutterstock. Hlutabréfaverð Getty Images hefur hækkað um meira en 40% og gengi hlutabréfa Shutterstock um 25% í viðskiptum fyrir opnun markaða vestanhafs í dag
Það stefnir því í að tveir stærstu veitendur leyfisskylds sjónefnis (e. visual content) í Bandaríkjunum muni sameinast. Óvíst er þó hvort samkeppnisyfirvöld muni gefa grænt ljós fyrir samrunanum.
Samkomulagið felur í sér að hluthafar Shutterstock fá val um að fá greitt annað hvort 28,85 dali eða 13,67 hluti í Getty fyrri hvern hlut í Shutterstock, eða blöndu af reiðufé og hlutafé í Getty. Gert er ráð fyrir að Getty Images greiði hluthöfum Shutterstock um 331 milljón dala, eða um 46 milljarða króna, í reiðufé vegna samrunans.
Áætlað er að hluthafar Getty Images muni eiga um 54,7% af sameinuðu félagi á móti núverandi hluthöfum Shutterstock þegar viðskiptunum lýkur. Heildarvirði sameinaðs félags, sem mun áfram heita Getty Images Holdings, verður um 3,7 milljarðar dala.
Í umfjöllun Bloomberg segir að gervigreind hafi og komi til með að hafa mikil áhrif á markaðinn með efnissköpun (e. content-creation) auk þess sem að myndavélar á snjallsímum hafi dregið úr virði myndasafnanna. Með samrunanum opnast tækifæri fyrir hagræðingu ásamt því að horft er til þess að auka þjónustuúrval.
Getty Images var stofnað af Mark Getty - barnabarni J. Paul Getty, sem var um tíma ríkasti maður heims – árið 1995. Mark, sem er stjórnarformaður Getty Images, er stjórnarmaður í Getty Investments sem á um 43% hlut í fyrirtækinu.
Getty Images var keypt af fjárfestingarfélaginu Hellman & Friedman árið 2008 sem tók fyrirtækið af markaði. Fjórum árum síðar var Getty Images selt til Carlyle Group. Getty fjölskyldan eignaðist aftur ráðandi hlut í félaginu árið 2018 og seldi í kjölfarið minnihluta til fjárfestingararms Koch Industries.
Fjölskyldan samþykkti svo árið 2021 samruna við sérhæft yfirtökufélag og var þannig skráð á markað árið 2022. Dagslokagengi Getty Images í gær var um 74,3% lægra en útboðsgengi félagsins í júlí 2022.