Netmyndabankinn Getty Images er með til skoðunar að sameinast keppinaut sínum Shutterstock, samkvæmt heimildarmönnum Bloomberg. Gangi áformin eftir þá myndu tveir stærstu veitendur leyfisskylds sjónefnis (e. visual content) í Bandaríkjunum sameinast.
Getty hefur verið að skoða hvernig mögulegum samruna gæti verið háttað. Þreifingar eru hafnar um en heimildarmennirnir árétta að Getty gæti ákveðið að falla frá áformunum.
Fulltrúar Getty Images neituðu að tjá sig um málið og talsmaður Shutterstock var ekki búinn að svara fyrirspurn Bloomberg þegar fréttin fór í lofitð.
Hlutabréfaverð Getty Images tók stökk við fregnirnar í gær og hækkaði um ríflega 13%. Markaðsvirði félagsins nemur í dag 982 milljónum dala. Hlutabréf Shutterstock hækkuðu einnig um 8% í gær og er félagið nú metið á 1,10 milljarða dala.