Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, lét sér fátt um finnast um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að mæta núverandi efnahagsástandi á Alþingi í dag.
„Það er allt í rugli, það vissum við,“ sagði Sigmundur sem beindi spjótum sínum að Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma þingsins.
„Nú er lítið eftir af þinginu og ástandið í efnahagsmálum og á vinnumarkaði er algerlega óviðunandi. Því spyr ég hæstvirtan forsætisráðherra: Er ekki rétt að nota þann skamma tíma sem eftir er af þessu þingi til að einbeita sér að þeim málum. Að efnahagsástandinu, að vinnumarkaðnum, að verðbólgunni, að stöðunni á húsnæðismarkaði?“ spurði Sigmundur.
„Við getum ekki farið inn í sumarið án þess að bregðast við þessu ástandi. Er ekki rétt að nota tíma þingsins, nota tíma nefndanna og ég tala nú ekki um ríkisstjórnarinnar og ráðherranefndar um efnahagsmál til að koma með lausnir á þessum vanda áður en þingið fer í sumarfrí?“ spurði Sigmundur.
Næturfundir og pítsur á kostnað skattgreiðenda
Sigmundur sagði vandamálið aðkallandi og krafðist þess að allir kjörnir fulltrúar myndu leggja sitt að mörkum „þó að þeir þurfi þá kannski að halda einhverja næturfundi sem er fullt tilefni til. Þeir getað pantað pítsur eða svið eða hvað annað á kostnað skattgreiðenda og enginn mun kvarta yfir því ef lausnirnar koma.”
„Við getum ekki farið inn í sumarið í þessu fullkomna óvissuástandi og við getum ekki látið þessa fáu daga sem eftir eru af þinginu líða án þess að brugðist sé við þessu neyðarástandi á öllum þessum sviðum,“ bætti Sigmundur við áður en Katrín fékk orðið.
Unnið að því að auka aðhaldið
Katrín sakaði Sigmund um að vera ansi yfirlýsingarglaður í sínu máli og sagði hannlíta fram hjá því sem hefur verið gert, er verið að gera og stendur til að gera.
„Háttvirtur þingmaður segist ekki vilja heyra um fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar eins og þær birtast í fjármálaáætlun. En ég verð bara minna háttvirtan þingmann á að við erum að vinna samkvæmt fjárlögum ársins í ár, sem samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum styðja við verðbólgumarkmið, styðja við aðgerðir Seðlabankans,” sagði Katrín.
„Við erum að vinna að því hvernig við getum aukið enn aðhald á komandi árum út frá ábendingum sama aðila þannig að við erum að gera það sem þarf án þess að vera að panta pítsur á kostnað skattgreiðenda. Þess þarf ekki.“
„Hér er mikill hagvöxtur og spáð meiri hagvexti en áður “
Katrín vildi ekki gangast við yfirlýsingu Sigmundar um að allt væri í uppnámi á vinnumarkaðinum og benti honum á að víðast hvar væru samningar í gildi. Þó vissulega væru verkfallsaðgerðir núna varðandi samninga við sveitarfélög. Hún sagði samtalið við vinnumarkaðinn vera gott og aðgerðir til að tryggja langtímasamninga um næstu áramót í bígerð.
„Það skiptir verulegu máli að allir leggi sitt af mörkum. Ég ætla hins vegar ekki að fara í þann leik sem hefur verið ansi mikið leikinn að undanförnu að benda á einstakra sökudólga vegna ástandsins. Staðreyndin er sú að hér á Íslandi eru gríðarlega mikil efnahagsumsvif. Hér er lítið atvinnuleysi. Hér er mikill hagvöxtur, spáð meiri hagvexti en áður var spáð og við sjáum verðbólguna birtast þannig,“ sagði Katrín.
„Það er ekki staðan hér sú sama og víða í nágrannalöndum okkar þar sem við sjáum vaxandi atvinnuleysi, samdrátt og háa verðbólgu þannig að við erum í raun og veru í góðri stöðu til að takast á við þetta og ég ætla að leyfa mér að trúa því að nýjasta verðbólgumælingin án þess að hrósa happi, ég held að það sé ekki tímabært. En ég hef trú á því að verðbólgan fari niður og þetta sé skýrt merki um það,“ bætti hún við að lokum.
„Risastórt verkefni sem kallar auðvitað á samstillt átak allra”
Sigmundur sagði Katrínu tala eins og hún væri „forsætisráðherra einhvers allt annars lands” en Íslands og talaði eins og „hér væri allt í góðu.”
„Því skyldi ekki vera þensla með gegndarlausri útgjaldaaukningu ríkisins, eins og við höfum horft upp á að undanförnu? Og hver heldur því fram að ríkisstjórnin sé að leggja sitt af mörkum við að takast á við verðbólguna? Ekki Seðlabankinn. Ég hef ekki heyrt neina álitsgjafa úti í bæ halda því fram,“ sagði Sigmundur sem bætti við að hann vildi einungis að ríkisstjórnin myndi taka þátt í aðgerðum gegn verðbólgunni.
Katrín útilokaði ekki frekari aðhald til að ráða bug á verðbólgunni og sagði það alrangt að halda því fram að hún geri lítið úr þeim vanda.
„Þetta er risastórt verkefni sem kallar auðvitað á samstillt átak allra, ekki bara ríkisstjórnarinnar þótt vissulega hafi hún hlutverki að gegna, heldur líka auðvitað Seðlabankans, sem er auðvitað leiðandi þar, og vinnumarkaðarins,” sagði Katrín að lokum.