Lögmaður innflutningsfyrirtækisins Dista ehf. hefur sent fjármála- og efnahagsráðherra, Daða Má Kristóferssyni, sem fer með yfirstjórn og eftirlitsskyldu yfir Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins (ÁTVR), bréf þar sem kallað er eftir skýrri afstöðu ráðherrans til brota stofnunarinnar í tengslum við vöruval og ákvörðunartöku.
Meðal annars er óskað eftir skýringum á því hvers vegna ÁTVR hafi ekki brugðist við dómi Hæstaréttar frá 4. desember síðastliðnum, þar sem ógilt var sú ákvörðun að fella tvær vörutegundir, Faxe Witbier og Faxe IPA, úr sölu í kjarnaflokki.
Lögmaður Distu, Jónas Fr. Jónsson, vísar í bréfi sínu til þess að Hæstiréttur hafi slegið því föstu að óheimilt sé að nota framlegð sem viðmið í vöruvali ÁTVR en líkt og Viðskiptablaðið greindi frá henti stofnunin nýverið vörum úr sölu á grundvelli hins ólögmæta viðmiðs.
Samkvæmt lögmanni Distu er eftirspurn lögmætt viðmið sem ætti að styðjast við eins og kveðið er á um í lögum um verslun með áfengi og tóbak.
En um er að ræða tvær tegundir af spænsku freyðivíni sem voru felldar úr sölu þrátt fyrir að njóta mun meiri eftirspurnar en aðrar vörur í sama flokki.
Dista hefur ítrekað óskað eftir upplýsingum frá ÁTVR um það hvort hin ólögmæta ákvörðun varðandi ofangreindar vörur yrði látin standa en stofnunin hefur ákveðið að svara ekki bréfum Distu.
„Engu þessara þriggja bréfa var svarað af hálfu ÁTVR sem eitt og sér felur í sér brot á svarreglu stjórnsýsluréttarins. Þann 1. febrúar 2025 voru ofangreindar vörur felldar úr sölu ÁTVR. Þannig framkvæmdi ÁTVR ólögmæta ákvörðun sem var til þess fallin að valda umbjóðanda mínum tjóni,“ segir í bréfi Dista til fjármálaráðherra.
Ásetningsbrot ÁTVR
Jónas bendir á að stjórnvöld hafi lagalega skyldu til að virða reglur réttarríkisins og bæta úr brotum sínum.
Í bréfi lögmannsins er vakin athygli á því að ÁTVR hafi ekki aðeins viðhaldið ólögmætu ástandi heldur einnig framkvæmt nýjar ákvarðanir sem brjóti gegn sömu reglum.
„Ljóst er að þessi framganga stofnunarinnar var gerð af ásetningi og getur ekki talist annað en misbeiting valds. Með bréfi þessu er kallað eftir afstöðu ráðherra til þessarar framgöngu ÁTVR,“ segir í bréfinu.
Þá hefur ÁTVR ekki brugðist við dómi Landsréttar frá 20. febrúar síðastliðnum, sem staðfesti að synjun stofnunarinnar á umsókn Distu um sölu vörunnar Shaker Original Alcohol & Caffeine hefði verið ólögmæt.
„Af dómnum er einsýnt að ákvörðun ÁTVR var ólögmæt og byggði á geðþótta. Umsókn umbjóðanda míns barst ÁTVR þann 15. október 2020 og hefur því verið til meðferðar hjá stofnuninni í langan tíma, sbr. m.a. meginreglu um ex tunc áhrif ógildingar. Þrátt fyrir það hefur ÁTVR í engu brugðist við dómi Landsréttar sem féll fyrir rúmum þremur vikum,“ segir í bréfi Distu.
Afrit á umboðsmann Alþingis
Auk ásakana um brot á lögum veltir Jónas því upp hvort forstjóri ÁTVR sé hæfur til að fjalla um úrbætur vegna brotanna. H
ann bendir á að forstjórinn þurfi að taka afstöðu til eigin ákvarðana og bera ábyrgð og telur viðbragðsleysi stofnunarinnar benda til að hlutdrægni gæti verið til staðar.
Lögmaðurinn kallar eftir því að fjármálaráðherra grípi tafarlaust til aðgerða til að tryggja að ÁTVR fylgi lögum og dómsniðurstöðum.
Bréfið var jafnframt sent embætti umboðsmanns Alþingis til upplýsingar.
Lögmaður Distu krefst þess að ráðherra svari erindinu fyrir 24. mars, en hafi engin viðbrögð borist fyrir þann tíma, muni það teljast sem samþykki á framgöngu ÁTVR.