Gert er ráð fyrir að hluta­bréf Hamp­iðjunnar verði tekin til við­skipta á aðal­markaði Kaup­hallarinnar þann 9. júní næst­komandi en Hamp­iðjan hefur ýsingu vegna al­menns út­boðs og fyrir­hugaðrar skráningar á aðal­markað.

Fé­lagið hefur verið skráð á First North markaðnum frá árinu 2007. 85 milljón nýir hlutir í fé­laginu verða boðnir til sölu í al­mennu út­boði, sem jafn­gildir 13,37% af heildar­hluta­fé eftir hluta­fjár­hækkun þess efnis.

Í til­efni þess var Hjörtur Er­lends­son, for­stjóri Hamp­iðjunnar í við­tali í hlað­varps­þætti Fortuna Invest en þar fór hann yfir verk­efni fram­tíðarinnar hjá fyrir­tækinu.

Hamp­iðjan vinnur nú að því að þróa ljós­leiðara­kapal sem þræddur er í veiðar­færin og steyptur inn í plast. Hjörtur segir að um al­gjöra byltingu sé að ræða þegar það kemur að botn­fisk­veiðum.

„Ljós­leiðarar hafa mikla flutnings­getu og geta flutt eina bíó­mynd á tveimur sekúndum. Það er því hægt að hafa ótal margar mynda­vélar við trollið til að geta séð í raun­tíma hvaða fiskur er að koma inn í það. Það er verið að vinna að því að þróa mynd­greiningar­tæki sem tekur mynd af fiskunum og út frá myndinni er stærð og lengd fisksins mæld og þyngd hans reiknuð út og á­kveðið hvort vilji sé til að veiða fiskinn eða ekki. Þannig væri í fram­tíðinni hægt að stilla búnaðinn inn á það að veiða ein­göngu t.d. þorsk af á­kveðinni stærð. Þetta getur gjör­bylt greininni þegar kemur að botn­fisks­veiðum en gerist ekki á næsta ári en gæti tekist á nokkrum árum” segir Hjörtur í samtali við Fortuna Invest.

Ljós­leiðara­ka­pall Hamp­iðjunnar hlaut verð­laun fyrir bestu nýjungina á sjávar­út­vegs­sýningu í septem­ber sl.

Í við­talinu fer Hjörtur yfir víðan völl en hann segir m.a. að mikill metnaður sé í fyrir­tækinu fyrir endur­vinnslu en gömul veiði­færi fyrir­tækisins eru mikið endur­nýtt, m.a. inn­réttingar og mottur í nýjum raf­bílum fram­leiddum af BMW. Fyrir­tæki séu í mörgum til­vikum til í að greiða hærra verð fyrir endur­unnið efni sem er t.d. það sem BMW er að gera.

„Í dag eru búið að finna endur­vinnslu­leiðir fyrir nánast allt efni í fram­leiðslunni. Veiðar­færa­iðnaðurinn er komin lengra en margar aðrar iðn­greinar í að endur­vinna sitt efni. Fram­tíðar­sýnin er að geta hreinsað eldri veiðar­færi það vel að það sé hægt að nota þau í ný veiðar­færi” segir Hjörtur.

Hamp­iðjan fram­leiðir í dag efni fyrir veiðar­færi í verk­smiðju sinni í Litháen og selur til fyrir­tækja einkum í sjávar­út­vegi, bæði sem full­búin veiðar­færi, í­hluti í veiðar­færi og kvíar fyrir fisk­eldi. Einnig fram­leiðir fé­lagið vörur fyrir olíu­iðnað, djúp­sjávar­verk­efni og fleira.

Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

„Ef það gefast tæki­færi til að kaupa önnur fyrir­tæki munum við hik­laust gera það”

Eftir yfir­töku Hamp­iðjunnar á norska fé­laginu Møre­not fyrr á þessu ári starfa 2000 starfs­menn hjá fyrir­tækinu.

Spurður út í sam­legðar­tæki­færin svarar Hjörtur að fyrir­tækin séu að mörgu leyti lík og vinni á mörgum land­fræði­legum mörkuðum.

„Það sem hefur komið okkur á ó­vart er að þegar við tókum við rekstrinum sjáum við enn fleiri mögu­leika en við sáum í upp­hafi, það hefur verið mjög já­kvætt að sjá að það leynast enn fleiri sam­legðar­tæki­færi en við gerðum ráð fyrir.”

Spurður út í fram­tíðina segir Hjörtur stóra verk­efnið næstu árin vera að sam­þætta starf­semi fé­laganna og ná út allri sam­legðinni sem að þar leynist. Það muni þó ekki stoppa Hamp­iðjuna í því að halda á­fram að þróa eins og venju­lega. “

„Ef það gefast tæki­færi til að kaupa önnur fyrir­tæki munum við hik­laust gera það, við vitum af fyrir­tækjum þar sem komið er að kyn­slóða­skiptum og eru á­huga­verðir kostir og við munum feta þá braut á­fram. Það eru spennandi ár fram undan enda mikið af á­huga­verðum verk­efnum sem við þurfum að vinna.”

Hægt er að hlusta á við­talið á öllum helstu hlað­varps­veitum