Gildi lífeyrissjóður mun kjósa gegn tillögunni um uppgjör á HFF-skuldabréfum ÍL-sjóðs á komandi fundi skuldabréfaeigenda þann 10. apríl.
Davíð Rúdólfsson framkvæmdastjóri Gildis staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið.
„Það er niðurstaðan eftir að hafa kynnt okkur betur hvað felst í tillögunni og eftir að hafa lagt mat á verðlagningu þeirra verðbréfa sem ríkið er að bjóða í stað HFF-bréfanna og annað sem máli skiptir,“ segir Davíð.
Krafan á löngu bréfunum of lág
Rúmar þrjár vikur eru liðnar frá því að kynntar voru tillögur viðræðunefndar fjármálaráðherra og ráðgjafa lífeyrissjóða um uppgjör HFF-bréfa sem er ætlað að greiða fyrir slitum ÍL-sjóðs, gamla Íbúðalánasjóðs.
Þörf er á samþykki 75% kröfuhafa á fundi skuldabréfaeigenda svo tillagan hljóti brautargengi.
Virði HFF-bréfanna í uppgjörinu er metið 651 milljarður króna og er m.a. lagt til að ríkissjóður gefi út og afhendi kröfuhöfum ríkisskuldabréf að andvirði 540 milljarða króna.
Í tengslum við uppgjörið gefur ríkissjóður út ný ríkisskuldabréf að fjárhæð 540 milljarða króna þar sem m.a. er gerð upp eldri skuld ríkissjóðs við ÍL-sjóð að fjárhæð 238 milljarða króna auk þess sem ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum ÍL-sjóðs er gerð upp.
Aðspurður um meginástæður þess að lífeyrissjóðurinn hafni tillögunni, segir Davíð þó nokkrar ástæður liggja að baki afstöðu sjóðsins en meginástæðan sé að sjóðurinn sé ósammála verðlagningu á bréfunum sem ríkið býður á móti.
„Ávöxtunarkrafa á þeim löngu ríkisskuldabréfum sem ríkið hyggst afhenda sem gagngjald fyrir bréfin er ekki ásættanleg. Hún er einfaldlega lægri en við erum tilbúin að greiða fyrir slík ríkisskuldabréf, bréf sem eru með lokagjalddaga umtalsvert lengra fram í tímann heldur en þau ríkisskuldabréf sem útgefin eru á markaðinum í dag,“ segir Davíð.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur eitt helsta álitaefnið í uppgjörinu snúið að forsendu um verðlagningu HFF-bréfanna með 32 punkta álagi ofan á brúaðan vaxtaferil ríkisskuldabréfa.
Brúaður vaxtaferill ríkisskuldabréfa er reiknuð ávöxtunarkrafa fyrir mismunandi tímalengdir sem fengin er með stærðfræðilegri brúun milli bréfa með ólíka gjalddaga.
„Mjög löng skuldabréf kalla á áhættuálag í verðlagningu, með sambærilegum hætti og raunin er á erlendum skuldabréfamörkuðum með ríkisskuldabréf,“ segir Davíð.
Önnur ástæða sem Davíð nefnir snýr að seljanleika bréfanna en þau verða ekki með viðskiptavakt þótt þau séu verðlögð með þeim hætti.
„Það liggur fyrir að megnið af þeim ríkisskuldabréfum sem ríkið hyggst afhenda verða ekki með viðskiptavakt. Seljanleiki þeirra er því mun lakari heldur en ef svo hefði verið. Þessir sömu skuldabréfaflokkar eru hins vegar verðlagðir í fyrirliggjandi tilboði eins og þeir væru með viðskiptavakt,“ segir Davíð.
En minni seljanleiki kallar á seljanleikaálag líkt og fyrirliggjandi tillaga gerir ráð fyrir varðandi HFF-bréfin.
„Svo er verðlagningin á HFF-bréfunum ekki eðlileg að okkar mati. Þar erum við að horfa til þess að HFF-bréfin eru samkvæmt tillögunni verðlögð miðað við 32 punkta álag ofan á ríkisskuldabréfaferilinn. Það þykir okkur ekki eðlilegt seljanleikaálag eða verðlagning á þeim bréfum miðað við forsögu málsins,“ segir Davíð enn fremur.
Að mati Gildis, þegar allir þessir þættir eru teknir saman, er tilboð ríkisins ekki ásættanlegt.
„Það munar hreinlega of miklu þegar allt er tekið með í reikninginn. Eftir mikla yfirlegu og þrátt fyrir að hafa sýnt vilja til þess að ljúka þessu máli með samkomulagi þá er það niðurstaða okkar að hafna þessu tilboði,“ segir Davíð.