Gildi-Líf­eyris­sjóður hefur lagt til breytingar á kaup­réttar­kerfum stjórn­enda hjá bæði fast­eigna­fé­laginu Heima og smá­sölurisanum Haga.

Kaup­réttar­kerfi lykil­stjórn­enda beggja fé­laga mættu and­stöðu frá líf­eyris­sjóðum fyrr á árinu, sér í lagi frá Gildi, en stjórnir bæði Haga og Heima hafa nú boðað til hlut­hafa­fundar á föstu­daginn til þess að greiða at­kvæði um kaup­réttar­á­ætlun stjórn­enda.

Gildi er stærsti hlut­hafi Haga með tæp­lega 18% hlut en líf­eyris­sjóðurinn lagðist gegn kaup­réttar­á­ætluninni sem var lögð fram á aðal­fundi Haga í vor og var af­greiðslu því frestað.

Gildi-Líf­eyris­sjóður hefur lagt til breytingar á kaup­réttar­kerfum stjórn­enda hjá bæði fast­eigna­fé­laginu Heima og smá­sölurisanum Haga.

Kaup­réttar­kerfi lykil­stjórn­enda beggja fé­laga mættu and­stöðu frá líf­eyris­sjóðum fyrr á árinu, sér í lagi frá Gildi, en stjórnir bæði Haga og Heima hafa nú boðað til hlut­hafa­fundar á föstu­daginn til þess að greiða at­kvæði um kaup­réttar­á­ætlun stjórn­enda.

Gildi er stærsti hlut­hafi Haga með tæp­lega 18% hlut en líf­eyris­sjóðurinn lagðist gegn kaup­réttar­á­ætluninni sem var lögð fram á aðal­fundi Haga í vor og var af­greiðslu því frestað.

Breytingar­til­laga Gildis sem verður lögð fyrir hlut­hafa á föstu­daginn hljóðar á þann veg að nýtingar­verð hvers hlutar sam­kvæmt kaup­réttar­samningi hverju sinni skuli ekki vera lægra en vegið meðal­verð í við­skiptum með hluta­bréf fé­lagsins tuttugu heila við­skipta­daga fyrir gerð hvers kaup­réttar­samnings, að við­bættum 7,5% ár­legum vöxtum sem reiknast yfir tíma­bilið frá gerð kaup­réttar­samnings og fram að nýtingar­degi.

Þá er lagt til að kaup­réttar­hafi geti að há­marki fengið út­hlutað kaup­réttum sem nema 0,15% af nú­verandi hluta­fé Haga hf. vegna hins nýja kaup­réttar­kerfis.

Til­laga stjórnar Haga gerir ráð fyrir því að séu kaup­réttir gefnir út fyrir lok septem­ber 2024 þá sam­svari nýtingar­verð kaup­rétta dagsloka­gengi hluta­bréfa í Högum hf. eins og það var skráð á Nas­daq Iceland í ís­lenskum krónum þann 31. maí 2024, þ.e. daginn eftir aðal­fund fé­lagsins 2024, upp­reiknað með 5,5% ár­legum vöxtum frá aðal­fundi 2024.

0,2% há­marks­út­hlutun til for­stjóra „of viða­mikil”

Í breytingar­til­lögu Gildis segir að líf­eyris­sjóðurinn telji það ekki heppi­legt fyrir­komu­lag að gengi kaup­réttar­samninga sé á­kvarðað aftur­virkt með þeim hætti sem gert er í til­lögu stjórnar, þ.e. að notast við gengið 77,5 kr. á hluta­bréfum fé­lagsins frá 31. maí síðast­liðnum.

„Um­rætt gengi er nokkuð undir nú­verandi gengi hluta­bréfa fé­lagsins og því væri að ó­breyttu verið að leggja upp með inn­byggðan hagnað í upp­hafi inn­leiðingar á hinu nýja kaup­réttar­kerfi. Slíkt er ekki heppi­legt að mati Gildis enda felur það í reynd í sér sér­tæka kaup­auka­greiðslu sem slíkum hagnaði nemur, til við­bótar við réttindi sam­kvæmt hinum nýju kaup­réttar­samningum og aðrar þær kaup­auka­greiðslur sem stjórn­endur geta á­unnið sér sam­kvæmt starfs­kjara­stefnu fé­lagsins,” segir í breytingar­til­lögu Gildis.

Þá telur Gildi einnig að til­laga stjórnar um 0,2% há­marks­út­hlutun til for­stjóra og ein­stakra stjórn­enda í hinu nýja kaup­réttar­kerfi sé of viða­mikil.

„Miðað við til­lögu stjórnar væri þannig mögu­legt að út­hluta kaup­réttum til ein­stakra stjórn­enda þar sem undir­liggjandi markaðs­verð hluta­bréfa fé­lagsins að baki við­komandi kaup­réttum gæti orðið ná­lægt 180 milljónum króna, miðað við nú­verandi gengi hluta­bréfa fé­lagsins. Er af þeim sökum lagt til að um­ræddri há­marks­út­hlutun kaup­réttar­samninga til ein­stakra kaup­réttar­hafa verði breytt í 0,15% af hluta­fé Haga hf. Í þessu felst eins og gefur að skilja ekki hvatning eða skylda stjórnar fé­lagsins til þess að nýta um­rætt há­mark,“ segir í til­lögu Gildis.

Um 28% færri hlutir til forstjóra

Hvað varðar Heima leggur Gildi til að hækkun nýtingar­verðs kaup­rétta nemi 7,5% ár­legum vöxtum sem reiknast yfir tíma­bilið frá gerð kaup­réttar­samnings og fram að nýtingar­degi. Þá er lagt til að for­stjóri geti að há­marki fengið út­hlutað kaup­réttum að 5 milljónum hluta í fé­laginu.

Stjórn Heima hafði áður lagt til að há­marks­út­hlutun for­stjóra fé­lagsins, Hall­dórs Benja­míns Þor­bergs­sonar, yrði 7 milljónir hluta.

„Miðað við til­lögu stjórnar væri mögu­legt að út­hluta kaup­réttum til for­stjóra þar sem undir­liggjandi markaðs­verð hluta­bréfa fé­lagsins að baki við­komandi kaup­réttum gæti orðið ná­lægt 200 milljónum króna, miðað við nú­verandi gengi hluta­bréfa fé­lagsins. Í ljósi fyrir­liggjandi upp­lýsinga um kjör telur sjóðurinn að til­laga stjórnar um há­marks­út­hlutun í hinu nýja kaup­réttar­kerfi sé of viða­mikil,” segir í til­lögu Gildis.

Stjórn Heima lagði einnig til 5,5% ár­legrar hækkunar nýtingar­verðs en Gildi segir það „undir því sem eðli­legt getur talist meðal annars með hlið­sjón af þeirri á­vöxtunar­kröfu sem hlut­hafar og aðrir fjár­festar eru lík­legir til að gera til hluta­bréfa fé­lagsins.”
Sem fyrr segir leggur Gildi til að nýtingar­verð hækki þess í stað ár­lega um 7,5% sem sjóðurinn telur hóf­legt í því sam­hengi og sam­tvinni þannig betur hags­muni aðila.