Í fjárlagafrumvarpinu sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í morgun kemur fram að hækka á almennt áfengisgjald um 7,7% á næsta ári. Auk þess hækki áfengisgjald í fríhafnarverslunum um 150%, eða úr 10% í 25% af almennu áfengisgjaldi.
Félag atvinnurekenda (FA) hefur tekið saman áætluð áhrif fyrirhuguðu skattahækkunarinnar á vöruverð vinsælla drykkja á heimasíðu sinni.
Sjá einnig: Evrópumet í áfengisgjöldum
Samkvæmt útreikningum FA mun kassi af vinsælu léttvíni hækka um 600 krónur í Vínbúðinni, bjórkippa um tæplega 150 krónur og eins lítra ginflaska um 663 krónur. Í Fríhöfninni, þar sem verðhækkuninn er enn meiri, gæti verð á eins lítra ginflösku hækkað um 2.300 krónur og léttvínskassinn um 1.800 krónur.
FA tekur fram að snúnara er að reikna út verðbreytingar í Fríhöfninni þar sem álagning hennar er ekki föst og lögbundin eins og hjá ÁTVR. Jafnframt sé það ekki heildsalinn eða framleiðandi áfengisins sem stendur skil til ríkissjóðs á áfengisgjaldinu áður en varan er afhent Fríhöfninni, heldur greiði Fríhöfnin það eftir á. Dæmi FA hér að neðan miðar við að framlegð Fríhafnarinnar af hverri vöru sé sama prósenta og í dag.
Skattlagning út úr öllu korti
Fjármálaráðuneytið áætlar í greinargerð fjárlagafrumvarpsins að skattahækkunin skili 1,64 milljarða króna tekjuhækkun í ríkissjóð og tekjur af áfengisgjaldi verði 25,5 milljarðar á næsta ári.
„Ríkisstjórnin hjálpar ekki til í baráttunni við verðbólguna þegar hún bætir í gjöld sem hækka almennt verðlag,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.
„Skattlagning á áfenga drykki á Íslandi er löngu komin út úr öllu korti og bitnar til dæmis hart á samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar. Við höfum oft kallað eftir rökstuðningi fyrir því að þessir skattar eigi að vera svona miklu hærri en í nágrannalöndum okkar, en komum þar ævinlega að tómum kofunum hjá stjórnmálamönnum.“
FA segir að fjármálráðuneytið fari með rangt mál í greinargerð fjárlagafrumvarpsins um að áfengisgjöldin hafi verið óbreytt frá árinu 2019.
„Í tilviki áfengisgjaldsins er þetta alrangt; það hefur verið hækkað árlega og nemur uppsöfnuð hækkun þess 16% frá 2019 til 2023, miðað við frumvarpið.“