Gistinætur á hótelum í október voru rúmlega 513.800 á landsvísu eða um 4,1% fleiri en á sama tíma árið 2023 þegar þær voru 493.800. Þetta kemur fram á síðu Hagstofunnar en þar segir að þær hafi aukist alls staðar á landinu nema á Suðurnesjum og á Austurlandi.

Fjölgunin var þá mest á Suðurlandi en þar jukust gistinætur á hótelum um 17% og á Vesturlandi og Vestfjörðum, eða 13,7%. Þá var einnig 6,4% aukning á Norðurlandi.

„Framboð hótelherbergja í október jókst um 2,3% miðað við sama tíma árið 2023. Líkt og um gistinæturnar jókst fjöldi herbergja mest á Suðurlandi, eða um 9,9%, og á Vesturlandi og Vestfjörðum, um 7,3%,“ segir jafnframt í greiningu.

Þegar allir skráðir gististaðir, það er að segja hótel, gistiheimili, tjaldsvæði, orlofshús, o.fl., þá var áætlaður heildarfjöldi gistinátta í október tæplega 779.000. Þetta samsvarar 2,3% aukningu miðað við sama tíma í fyrra.

Meginþorri þessara gistinátta var á hótelum og gistiheimilum, eða rúmlega 609.000, en um 170.000 á öðrum tegundum skráðra gististaða.