Skráðar gistinætur í janúar voru 449.800 talsins og hafa aldrei verið fleiri, að því er kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar. Gistinóttum í janúar fjölgaði um 86% frá janúar 2022 og um 7,5% aukning frá fyrra metári 2020 en þá voru þær 418.300.

Gistinætur erlendra ferðamanna voru um 79% gistinátta, eða um 356.000 talsins sem er tvöföldun frá fyrra ári. Gistinætur Íslendinga voru um 93.800 sem er 45% aukning frá fyrra ári.

Gistinætur á hótelum í janúar voru 312.000 sem er 93% aukning frá fyrra ári. Framboð hótelherbergja í janúar jókst um 4,6% frá fyrra ári.

Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 361.300 og um 88.500 á öðrum tegundum skráðra gististaða (íbúðagisting, orlofshús, tjaldsvæði o.s.frv.).

Gistinætur á Airbnb tvöfölduðust

Hagstofan áætlar að gistinætur erlendra ferðamanna í heimagistingu í gegn um Airbnb og svipaðar síður hafi verið um 518.000 árið 2021 og um 1.168.000 árið 2022.

Gistinætur erlendra ferðamanna í húsbílum utan gjaldskyldra tjaldsvæða eru áætlaðar um 78.000 árið 2021 og 75.000 árið 2022, meðan áætlað er að þær hafi verið um 96.000 hjá vinum og ættingjum árið 2021 og um 264.000 árið 2022.