Gistinætur á skráðum gististöðum hérlendis í febrúar fjórfjölduðust á milli ára. Þær voru um 396.400 talsins í nýliðnum febrúarmánuði, samanborið við 89.100 árið áður. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar .

Íslenskar gistinætur voru um 26% af heildargistinóttum á skráðum gististöðum í febrúar, eða um 104.500. Erlendar gistinætur voru um 292 þúsund, en þær voru einungis um 10 þúsund á sama tíma í fyrra. Aukning gistinátta á milli ára var því fyrst og fremst drifin áfram af fleiri erlendum ferðamönnum. Gistinóttum fækkaði um 17% í samanburði við febrúar 2020.

Hótelgisting jókst í mánuðinum í öllum landshlutum, en hlutfallsleg aukning var mest á höfuðborgarsvæðinu. Þannig voru gistinætur á hótelum í febrúar um 271.200 talsins, rúmlega fimmfalt fleiri en á sama tíma í fyrra. Þar af voru gistinætur Íslendinga á hótelum um 62.600 talsins, eða 23% af hótelgistinóttum, og jukust um tæp 70% á milli ára.

Frá mars 2021 til febrúar 2022 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum rúmlega 2,8 milljónir. Það er þrefalt meira en á sama tímabili árið áður. Aukningin var í öllum landshlutum á þessu tímabili.

Jafnframt segir að framboð hótelherbergja í febrúar hafi aukist um 61% frá febrúar 2021, þar af jókst framboðið á höfuðborgarsvæðinu um 94,5% og á Norðurlandi um 102,2%. Herbergjanýting á hótelum var 49,3 í febrúar og jókst um 36,5 prósentustig frá fyrra ári.