Gistinætur á hótelum í desember voru tæplega 335.000 á landsvísu eða tæplega 13,4% fleiri en á sama tíma árið 2023 þegar þær voru rúmlega 295.000. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar.

Gistinóttum fjölgaði töluvert í öllum landshlutum nema á Austurlandi, þar sem þær drógust saman um 1,9%. Aukningin var þá mest á Suðurlandi, eða um 22,9% og á Suðurnesjum, eða um 17%.

Framboð hótelherbergja í desember jókst um tæplega 2,1% miðað við sama tíma í fyrra og var aukningin mest á Suðurnesjum þar sem framboðið jókst um 15,3%. Þá var um 9,3% aukning á herbergjaframboði á Suðurlandi og 6,6% aukning á Vesturlandi og Vestfjörðum.

Litlar breytingar voru á höfuðborgarsvæðinu en 34,5% fækkun var á hótelherbergjum á Austurlandi.

„Þegar allir skráðir gististaðir (hótel, gistiheimili, tjaldsvæði, orlofshús, o.fl.) eru skoðaðir var áætlaður heildarfjöldi gistinátta í desember tæplega 454.000. Þetta var 12,2% aukning miðað við sama tíma árið 2023 en þá var heildarfjöldi gistinátta á öllum gististöðum tæplega 405.000. Meginþorri gistinátta var á hótelum og gistiheimilum eða rúmlega 379.000 (335.000 á hótelum og 44.000 á gistiheimilum) en um 75.000 á öðrum tegundum skráðra gististaða (tjaldsvæðum, orlofshúsum, o.s.frv.),“ segir í greiningu.

Gistinætur á hótelum og gistiheimilum töldu alls rúmlega 6,4 milljónir árið 2024 samanborið við tæplega 6,6 milljónir árið 2023. Þeim fækkaði því um tæplega 135 þúsund á milli ára eða 2,1%.