Gistinætur á hótelum í nóvember voru tæplega 384.000 á landsvísu eða ríflega 6,4% fleiri en á sama tíma árið 2023 þegar þær voru 361.000. Þetta kemur fram í frétt á vef Hagstofunnar.
Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum. Aukningin var mest á Norðurlandi og en gistinóttum fjölgaði þar um 17,4%. Þá fjölgaði gistinóttum á Vesturlandi og Vestfjörðum um 10,9% milli ára auk þess sem rúmlega 9,2% fjölgun var á gistinóttum á Suðurlandi á milli nóvembermánaða 2023 og 2024.
Herbergjanýting jókst í öllum landshlutum og mældist aukningin um 3,1 prósentustig á landinu í heild sinni.
Hagstofan segir að þegar allir skráðir gististaðir (hótel, gistiheimili, tjaldsvæði, orlofshús, o.fl.) séu skoðaðir var áætlaður heildarfjöldi gistinátta í nóvember rúmlega 548.000. Þetta var 6,4% aukning miðað við sama tíma árið 2023 en þá var heildarfjöldi gistinátta á öllum gististöðum rúmlega 515.000.