Gistinætur á hótelum í ágúst voru rúmlega 608.700 á landsvísu eða um 2,3% fleiri en á sama tíma árið 2023 þegar þær voru 595.100. Þetta kemur fram í greiningu Hagstofunnar sem birt var í dag.

Þar segir að fjölgunin hafi verið mest á Suðurlandi, eða 5,6% og á höfuðborgarsvæðinu, eða um 4,9%.

Minni aukning var á Norðurlandi en samdráttur var einnig í öðrum landshlutum þar sem gistinóttum fækkaði um 13,8% á Austurlandi, 7,1% á Vesturlandi og Vestfjörðum og 5,6% á Suðurnesjum.

Gistinætur erlendra ferðamanna voru tæplega 80% af gistinóttum hótela og hafði þeim fækkað um 2,9% miðað við sama tíma í fyrra. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði hins vegar um rúmlega 30%.

„Herbergjanýting jókst lítillega á landinu í heild sinni eða um 0,4 prósentustig og var ástæðan einkum aukin nýting á höfuðborgarsvæðinu um 4,9 prósentustig. Nýting herbergja dróst engu að síður saman í öllum öðrum landshlutum (nema á Norðurlandi) og var mest breyting á Austurlandi (-9,7),“ segir í greiningu.

Þegar allir skráðir gististaðir, það er að segja hótel, gistiheimili, tjaldsvæði, orlofshús, o.fl. eru skoðaðir var áætlaður heildarfjöldi gistinótta í ágúst ríflega 1.442.000.