Fastir óverðtryggðir íbúðalánavextir Landsbankans hafa fjarlægst hina einkabankana frá síðasta sumri þegar Íslandsbanki var skráður á markað og stór hluti hans seldur einkaaðilum. Slík lán eru langtum vinsælust meðal lántakenda sem og þeirra sem endurfjármagna um þessar mundir.
Síðustu þrjá mánuði hafa þeir enn fremur verið lægri en þau kjör sem bankinn stendur sjálfur frammi fyrir við fjármögnun slíkra lána með útgáfu svokallaðra sértryggðra skuldabréfa. Fjármálastjóri bankans segir ljóst að hækka þurfi vextina að óbreyttu þótt hann telji bankann ekki gefa lántakendum peninga með slíkum kjörum.
Hátt í hálfu prósenti undir eigin vaxtakostnaði
Hagstæðustu óverðtryggðu lán bankans fást með undir helmings veðhlutfalli og séu vextir festir eru þeir 6,2% til 3 ára eða 6,15% til 5 ára. Við það bætast svo 0,1% í 60% veðhlutfalli og önnur 0,1% í 70%.
Á sama tíma stóð ávöxtunarkrafa sértryggða bréfsins LBANK CB 25 með lokagjalddaga 2025 í 6,61% við lokun markaða í gær, og CB 27 sem er til 2027 stóð í 6,34%. 3 ára lánin eru því veitt á 0,41% lægri vöxtum en bankinn stendur frammi fyrir, og 5 ára lánin 0,19% undir.
Bankinn greiðir því hærri vexti af þeim bréfum sem kostnaður við útlánin byggir hvað mest á, þrátt fyrir að hafa hækkað vextina í þrígang á um mánaðartímabili frá apríllokum.
Í stuttu máli eru sértryggð bréf skuldabréf sem bankinn gefur út og eru tryggð með veði í fasteignalánum hans. Þau eru svo seld á uppboði og eiginleg vaxtakjör þeirra ráðast af endanlegu verði þar, en þau ganga svo kaupum og sölum í Kauphöllinni eftir það, og ávöxtunarkrafan í þeim viðskiptum gefur sterka vísbendingu um væntanlega kjör í næsta útboði.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.