Fjárfestirinn Warren Buffet sagði eitt sinn að í viðskiptum væri mikilvægast að huga að hlutum sem skipta máli og eru skiljanlegir. Gengissveiflur væru ekki þar á meðal, þær væru mikilvægar en óskiljanlegar.
Honum hefur þó tekist að stórgræða á viðskiptum sínum í Japan á síðustu árum, sér í lagi vegna þess hvernig hann varði sig gegn gengissveiflum. Í lok ágúst 2020 greindi Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Buffets, frá 6 milljarða dala fjárfestingu í fimm japönskum verslunarfélögum sem sérhæfa sig í millilandafjárfestingum.
Á síðustu fimm árum hefur MSCI Japan úrvalsvísitalan hækkað um 87% í jenum talið, sem er meira en S&P 500 vísitalan í Bandaríkjunum.
Samkvæmt The Wall Street Journal hefðu bandarískir fjárfestar sem hefðu keypt japönskum kauphallarsjóðum fyrir fimm árum grætt mun minna.
iShares MSCI Japan kauphallarsjóðurinn hefur skilað 36% ávöxtun á síðustu fimm árum þar sem jenið hefur tapað um þriðjungi af virði sínu gagnvart Bandaríkjadal á tímabilinu.
Þegar Buffet ákvað að fjárfesta í japönsku verslunarfélögunum gaf Berkshire út 1,6 milljarða dala skuldabréf í jenum sem báru vexti á bilinu 0,97% til 2,5%.
Hlutabréf í verslunarfélögunum fimm hafa fjórfaldast að meðaltali frá því að Berkshire fjárfesti í þeim í jenum talið. Gengið hefur hækkað um 150% í dölum talið, sem er vissulega góð ávöxtun en ekkert í samræmi við hækkunina í jenum.
Almennir fjárfestar gætu átt erfitt með að leika leik Buffets eftir þar sem lán í jenum eru ekki aðgengileg fyrir alla. Hins vegar er hægt að kaupa í japanska gengisvarða kauphallarsjóði iShares sem hefur skilað 31% ávöxtun á árinu í samanburði við 12% ávöxtun hjá óvörðu útgáfu sjóðsins.
Gengissveiflur geta auðvitað farið í báðar áttir, sér í lagi hjá jafn mikilli útflutningsþjóð og Japan. Hins vegar hefur hugmyndafræðin um að veikt jen hjálpi japönskum hlutabréfum ekki átt við upp á síðkastið.
Topix-vísitalan hækkaði til að mynda um 1,5% á síðasta fjórðungi á meðan jenið veiktist um 6% gagnvart Bandaríkjadal. Hlutabréf í bílarisanum Toyota ættu einnig að hækka er jenið veiktist en gengi Toyota lækkaði á síðasta fjórðungi.
Gengislækkun jensins síðustu mánuði gæti haft neikvæð áhrif á verðbólgu landsins og ýtt undir vaxtahækkanir frá seðlabanka Japans fyrr en ella.